Icelandic – Malagasy dictionary

14 10 2007
Íslenska Malagasy
Halló Salama / salam
Bless Veloma (Velúma)
Takk fyrir Mizowt (Misáltra)
Einn
Tveir Róa
Þrír Telu
Fjórir Efata
Fimm Dim
Sex Hinn
Sjö Fitu
Átta Valo
Níu Sivu
Tíu Fulu
Lítill / Stór Kele / Lehibe (lebe)
Bjór Biera
Hvítur (eins og við) Vasa (vesu)
Rólega, rólega Múra múra
Please Asafat
Hversu mikið? Otreen
Velkomin Tongasoa
Vatn Ranú
(Takk) Kærlega (Misoltre) Bisaka
Og Si eða ary
Hefur þú það gott? Salama vi
Mjög gott, frábært Tsara be
Hvað heitir þú? Isa mia mara má




Going home

14 10 2007

Morguninn eftir var svo keyrt til baka til Tana sömu leið og við komum. Við gátum haft smá bækistöð á Tana Plaza og einhverjir höfðu leigt herbergi í hálfan dag til að geta farið í sturtu og svoleiðis fyrir flugið sem var um kvöldið. Við fórum svo á markað sem seldi allskonar handiðnað. Það er ekki hægt að skipta peningum aftur yfir í dollara þannig að maður þurfti að skammta sér áður en við fórum á markaðinn og sumum fannst við fara með of lítin pening :) Elínborg keypti náttúrulega dúk eða tvo og við keyptum okkur líka málverk, ekkert meistaraverk en samt handmáluð mynd af sólsetrinu yfir nokkrum Boabab trjám. 

IMG_2417 Boabab looks like it is upside down

Síðan var komið við í í Hagkaup þeirra heimamanna sem var afar fróðlegt. Þar keyptum við tónlistardiska með Malagasy tónlist. Þeir reyndust reyndar vera tómir þegar heim var komið :) Við keyptum líka kaffibaunir og svoleiðis smáhluti. Við höfðum áður keypt bæði vanillu og ferskan kanil.

Við komum svo til baka á Plaza og þá tóku við gönguferðir til að drepa tímann áður en farið var á flugvöllinn. Á flugvellinum gekk allt mjög vel og heimamenn voru með skipulagið á hreinu. Meira segja var bara þokkaleg fríhöfn miðað við það sem maður átti von á.

Við fengum svo fínustu sæti í vélinni og flugið til Parísar gekk bara vel. Fólk fór svo til Bretlands með hinum ýmsu flugum þannig að við kvöddum flesta á vellinum í Tana en restina kvöddum við í París.

Það var erfið tilhugsun að þessi ævintýraferð væri búin en þó var nokkur tilhlökkun að fara heim því við höfðum verið lengi í fríi og Örn að byrja í nýrri vinnu og svona, ferðin með Flugleiðavélinni var því tregablandin en þó var nokkur tillhlökkun í okkur. Ferðin var líka búin að vera framar öllum vonum og hverrar krónu virði. Það er bara vonandi að við förum í fleirri svona ævintýraferðir á framandi slóðir.





Perinet

10 10 2007

Enn og aftur var svo haldið af stað snemma næsta morgun og í þetta skipti með rútu norð-austur af Tana, heldur niður af hásléttunni og í áttina að regnskóginum á austurströndinni en þar var ráðlagt að eyða síðustu þremur nóttunum. Vegurinn í átt að austurströndinni var mjög góður en nokkuð bugðóttur niður af hásléttunni. Stærsta höfn Madagaskar er austur af Tana og því mikil umferð flutningabíla þó svo að lest liggi einnig niður að höfninni. Við keyrðum í gegn um heimabæ forsetans og þar sagði Mamy okkur að þaðan kæmi snjallasta en einnig slóttugusta fólk landsins, einskonar Húsavík þessa lands ;) við stoppuðum loks í þjóðvegasjoppu af betri gerðinni og snæddum úti á verönd. Á veröndinni stóð einhverskonar pálmatré og Catherine sagði okkur frá því að áður hefði bambus-lemúr oft komið niður pálmann á meðan matargestir voru að gæða sér á máltíðinni. Pálminn hafði hins vegar skemmst í fellibyl og snáði hafði ekki látið sjá sig síðan. Síðasti stoppistaðurinn á leiðinni var næsta þorp við áfangastaðinn. Þetta var lítið, fátækt þorp við járnbrautarlínuna til sjávar. Þar voru kannski um hundrað kofar, ein kaþólsk kirkja og svo lestarstöð og hótel. Það sem helst gerir þorðið frægt er að Breskur rithöfundur gisti hér á leið sinni um landið, leið sem hann lýsir í bók sinni “Yah Yah and I”. Bók sem áhugamenn um Madagaskar verða víst að lesa. Börnin voru eins æðisleg og annarsstaðar og sértaklega tvö um þriggja til fjögurra ára, uppábúin, hún í fölbleikum kjól og hann í skyrtu og í vesti og voru þau með sjal yfir sér og skríktu “Vasa! Vasa!” og bentu á okkur og brostu út að eyrum. Það voru því ekki bara við sem voru að skoða þeirra líf heldur voru þau ekki síður að skoða okkur. Það var gaman að sjá að “búðirnar” þarna seldu ýmiskonar harðfisk allt frá agnar litlum fiskum og upp í eitthvað á stærð við þorsk. Þegar við ætluðum aftur upp í rútuna heyrðum við fallegan söng þar skammt frá og gengum í áttina. Þar fór fram smurning á líki látins þorpsbúa sem átti svo að dysja hæst uppi á fjalli svo hann verði sem bestur tengiliur við skaparann. Landsmenn hafa afar misjafna útfararsiði og hefur hver ættflokkur sinn háttinn á.

IMG_2598 Vasa Vasa!

Síðasti gististaður okkar heitir Vakona Lodge og er dásamlegur staður inni í regnskóginum á milli tveggja þjóðgarða, Perinet og Mandadia. Staðurinn samanstendur af móttöku og glæsilegum veitingastað og í kring eru svo um 25 kofar af betra taginu. Í boði er svo ýmis afþreying eins og hestaferðir, squash, sundlaug og margt fleirra. Við byrjuðum hins vegar á því að koma okkur fyrir og hentum okkur svo á barinn. Á þessum stað ein og sumum öðrum þurftum við að panta kvöldmat í hádeginu og hádegismatinn á morgnana sem var mjög skrýtið því yfirleitt var maður að panta þegar maður var pakk-saddur. Það kom reyndar ekki mjög að sök á þessum stað því allur matur var mjög góður og passlega skammtaður.

IMG_2641 Vakona Lodge

Snemma næsta morgun var haldið inn í Perinet þjóðgarðinn og inn í regnskóginn. Áður fyrr voru þjóðgarðarnir tveir einn samfelldur skógur en vegna ágangs mannsins hafa þeir slitnað í sundur. Mikið hefur þó verið plantað undanfarin ár en aðallega Eukalyptus sem vex hratt og hægt að nýta fljótt en gallinn við hann er að lemúrarnir borða hann ekki og því virka Eukalyptus beltin í raun eins og girðing fyrir þá. Því eru heimamenn í auknum mæli að planta trjám og plöntum með þetta í huga.

Allavega þá héldum við inn í Perinet skóginn sem inniheldur innlend tré í einhverju blandi við önnur. Með okkur voru leiðsögumennirnir Pascal og Bernadette. Lögð var fram ósk um að þau sýndu okkur Boa sem er stærsta slangan í Madagaskar, kyrkislanga sem verður um þriggja metra löng og um ökkla þykk. Við höfðum ekki gengið lengi þegar leiðsögumennirnir stukku út fyrir slóðann og kölluðu svo á okkur því þau höfðu fundið slöngu. Hún reyndist vera unglingur, um 1,5 metri á lengd og kannski eins og grannur úlnliður á þykkt. Hún var að halla sér þegar okkur bar að garði sem kom ekki á óvart því þær liggja lengi á meltunni ef þær ná góðri bráð (rottu, fugl eða feitum froski). Við sáum líka nokkra froska hoppandi í grasinu. Þeir voru ekki ólíkir þeim sem við höfum séð í Flórída nema hvað þeir voru brúnir á litinn. Þegar við fórum aftur af sta fórum við að heyra köllin frá Indri lemúrum í fjarska. Indri er stærstur núlifandi lemúra og er um meter á hæð og um tíu kíló. Köllin frá þeim á morgnana þegar þeir eru að láta vita af sér eru stórfengleg og um leið sorgleg. Það er einhver sorg og dulúð í köllunum eins og þeir séu að syngja með söknuði um horfna tíma, ekki ólíkt köllum steypireiða neðansjáfar. Brátt rákumst við á hóp Brúnna Lemúra sem eru alltaf jafn forvitnir um ferðir okkar mannanna og haga sér eins og þeir séu á “mannasafni” að skoða okkur, alveg ótrúlegt hvað þeir eru óhræddir og forvitnir. Við sáum líka mikið af allskonar fluglum en það er erfiðara fyrir okkur að tengja við þá því þeir eru svo ólíkir okkar fuglum og við heyrum nöfnin líka á ensku. Fyrir næstu ferð ættum við að fara yfir nöfn íslensku fuglanna á ensku til þess að geta tengt við réttar fjöldskyldur, þröstur við þröst og svo framvegis.

IMG_2637 Big big Boa

Fljótlega sáum við diademe sifaka lemúr og þegar betur var að gáð þá var hann með hálsól með loftneti. Pascal sagði okkur frá því að hann væri einn fjögurra sifaka sem höfðu verið færðir úr Mandadia. Lemúrar eigna sér svæði sem þeir verja fyrir öðrum en fjölskyldu sinni og voru öll svæði í Mantadia orðin full og þá hægir verulega á fjölgun þeirra. Einhverra hluta vegna voru engir diadema sifakar í Perinet og þeir fara ekki yfir eukalyptus beltið og því voru þessir fjórir færðir og fylgst með þeim til að byrja með. Mismunandi tegundir geta nefninlega deilt með sér svæði að mestu leiti því þeir éta mismunandi lauf af trjánum. Til hliðar við þessa tilraun er svo verið að tengja skógana saman með upprunalegum gróðri en sú uppgræðsla tekur auðvita lengri tíma. Í gegn um skóginn voru að mestu stígar og troðningar þannig að þægilegt var á fótinn og það kom manni á óvart að skógurinn var ekki mjög þéttur eða rakur enda var sól og blíða og nokkuð heitt. Þetta var því ekki eins og í frumskógarmyndum frá austur Asíu eða Suður-Ameríku.

Loks leiddi Bernadette okkur að Indri en hún var á hlaupum í kring um okkur að finna athugaverð dýr og plöntur á meðan Pascal sá að mestu um útskýringarnar og slíkt. Indri Indri var eins fallegur og allir hinir, aðeins stærri og leit kannski út eins og fjögurra ára barn í bangsabúningi á leið á grímuball. Sá sem við sáum fyrst var að chilla uppi í tré en var þó vakandi. Hann fylgdist með okkur með hægð en virtist ekkert of áhugasamur. Indri Lemúrar fara ekki niður úr trjánum nema til að ná sér í steinefni úr jarðveginum. Vatn innbyrða þeir í gegn um ávexti og lauf.

Við rákumst svo á annan sifaka og á meðan fólk var að mynda hann kom kellan og fóru þau að kela og Pascal taldi jafnvel að þau væru að reyna að eðla sig en það var ekki gott að sjá það því þau skiptu ört um stellingar. Hvað sem gerðirst þá var allavega stórkostlegt að fylgjast með þessum æðislegu dýrum.

Í gegn um skóginn runnu lækir sem áttu uppruna sinn í lindum ofar í fjöllunum og í þeim syntu fiskar stórir og smáir og köngulær á stærð við litla gemsa strengdu vefi sína yfir bakkan. Einnig sáum við stórar trjálýs sem hringuðu sig inn í skel sína sem var fallega dimm-græn og glansandi. Svona upprúlluð líktist hún helst fallegri glerkúlu. Í lok göngunnar sáum við svo fullorðna Boa og var hún bæði lengri og þykkari en sú fyrri þó erfitt væri að glöggva sig á nákvæmri lengd hennar þar sem hún hringaði sig upp í sólinni.

Eftir hádegið ætlaði svo hópurinn að heimsækja eyju þar sem voru lemúrar sem áður höfðu verið gæludýr en búið var að frelsa eftir að það var bannað að halda lemúra sem gæludýr. Á eyjunni var mest eukalyptus þannig að lemúrunum er einnig gefnir bananar og gulrætur og eru því afar gæfir.

IMG_2650 “Do you have anything to eat?”

Við vorum svo spennt að við fórum klukkutíma á undan með Clive og Julie sem eru næst ynstu hjónin í hópnum og þau sem við höfum náð að tengja hvað best við, barnlaus eins og við og í sinni fyrstu hópferð. Við röltum að eyjunni og fórum svo með kanó út í eyju með leiðsögumanninum Lucian. Hann fór og sótti nokkra banana og gulrót og svo röltum við inn í skóginn. Lucian gaf frá sér sérkennileg hljóð og það leið ekki á löngu þar til við fórum að heyra skrjáf í trjánum og svo birtust hver á fætur öðrum þrír svart-hvítir rafta lemúrar. Þeir líta út eins og gamlir kallar, svolítið eins og gamli bavíaninn í Lion King nema svartir og hvítir. Þeir létu sig hanga öfugir í trjánum rétt fyrir ofan okkur og þegar Lucian lét okkur hafa banana bita þá var togað í öxlina á manni til að snúa manni rétt og næst var höndin toguð að þeim og loks fengu þeir sér bita. Þeir voru með kalda en mjög mjúka putta og ef þeir þurftu að toga fast notuðu þeir aðeins neglurnar sem lágu ofan á puttunum eins og á okkur mönnunum. Við gáfum þeim nokkra bita og héldum svo áfram en þeir borða víst einhver kíló af bönunum og gulrótum á dag. Næstir komu til okkar Brúnir Lemúrar af tveimur tegundum í sitthvorri halarófunni. Þeir hoppuðu trjáa á milli og létu ekki þar við sitja heldur beint upp á axlirnar, hendurnar og hausa og notuðu okkur bara eins og tré á meðan þeir reyndu að ná í sem flesta banana. Meira að segja hoppaði ein mamman með unga á bakinu á axlirnar á Elínborgu og var þar hin spakasta. Á meðan ungarnir eru litlir þá ferðast mamman með þá að framan en eftir 4 vikur færa þeir sig á bakið og eru þar næstu tvo mánuði á meðan þeir eru smám saman að prufa sig áfram sjálfir í trjánum. Við héldum svo áfram með hersinguna alla á eftir og komum að síðustu tegundinni á eyjunni en það var diadema sifaka sem innfæddir kalla afa. Þetta var aðeins eitt karldýr þannig að við vorkenndum honum svolítið en hann var eina dýrið sem kom sjálfur á eyjuna eftir að hann hafði misst alla fjölskylduna sína í fellibyl. Hann var rólegastur af öllum lemúrunum og virtist yfirvegaðastur þeirra allra en fullfallegur. Hann var lítið að eltast við bananana heldur lét okkur koma til sín. Lucian bauð honum reyndar einusinni banana af löngu færi og þá dansaði hann eftir stígnum eins og sifaka er von og vísa en þeir eru orðnir svo aðlagaðir lífinu í trjánum að á jörðinni hoppa þeir bara til hliðar og eru sporin eins og þeir séu að dansa.

IMG_2658 Nice hat!

Það eru einmitt tvær ætthvíslir lemúra, önnur gengur á fjórum fótum á meðan hin hoppar svona til hliðar.

Við vorum nú komin aftur á upphafspunkt og héldum að heimsóknin væri búin en svo var alls ekki. Lucian setti okkur Clive í tveggja manna kanó en fór sjálfur með stelpurnar og sigldi áfram. Kom þá í ljós að þetta voru þrjár eyjar og á eyju númer tvö voru Brúnir Lemúrar sem eru full aggresívir þannig að við stoppuðum ekkert þar. Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir kæmu í röð á móti okkur. Á seinni tveimur eyjunum er meira af gróðri sem þeir geta borðað en þess utan fá þeir að borða kvölds og morgna banana og gulrætur. Eins og áður sagði þá fórum við ekkert í land þarna því þessir eiga það til að bíta fólk.

IMG_2674 Grandfather Lemur

Á næstu eyju fórum við hins vegar að landi og til okkar skoppuðu Ringtail Lemúrar en þeir eru sömu tegundar og kóngurinn Julian í Disney myndinni Madagaskar. Þarna var ein mamma með unga og svo þrír eða fjórir aðrir. Það var augljóst að þarna var kvennaveldi því mamman tuktaði hina illilega til ef þeir tóku bananabita sem hana langaði í. Einn var svo djarfur að hoppa um borð í banana leit en var fljótur í land ef hann fann einhverja hreyfingu á bátunum.

IMG_2703 “Where are the bananas?”

Þegar bananarnir voru uppurðnir dóluðum við í rólegheitunum til baka. Á baka leiðinni heyrðum við að það kom styggð að lemúrunum og þeir öskruðu allir og létu illa. Lucian sagði okkur að líklega hefði stór fugl flogið yfir en ránfuglar eiga það víst til að hirða upp ungana ef færi gefst.

Við vorum dauðfegin að fara á undan hópnum og fá alla athyglina frá lemúrunum og einnig auka bátsferð. Næst röltum við að fyrrverandi krókódílabúgarði en hann var aðal viðurværi Frakkanna sem eiga svæðið áður en þeir fóru í ferðamanna bransann. Það voru ekki allir sem vildu skoða þetta af prinsipp ástæðum en við vorum spennt. Það eru um 40 dýr eftir sem breiddu úr sér á stóru svæði þannig að það fór ekkert alltof illa um þá. Þeim er svo gefið 3-7 kíló af nautakjöti einusinni í viku en liggja á meltunni þess á milli. Örn náði þó að vekja nokkra til lífsins með ví að sveifla hattinum hattinum sínum inn fyrir girðinguna og þá tóku þeir af stað á fullri ferð þar til hattinum var kippt til baka. Líklega héldu þeir að þetta væri kjötstykki sem væri verið að bjóða þeim.

IMG_2714 “Umm steaks walking by”

Þarna var líka Fusa í búri og tveir kettlingar þeirra í öðru búri. Fusa er fallegur köttur heldur minni en Labrador en með sléttan, brúnar feld eins og otur og mjög langt skott. Fusa er eina rándýrið sem lemúrar þurfa að óttast og eru því ekki vinsælir í Madagaskar. Okkur fannst þetta ó afar falleg dýr og tíguleg. Það er merkilegt hvernig skoðun okkar á dýrum fer mikið eftir því hvað og hvernig þau borða. Það er ekki mikið eftir af Fusa og afar erfitt að sjá þau úti í náttúrunni því þau eru hrædd við menn eins og skiljanlegt er. Þarna voru svon nokkur önnur Madagaskar dýr eins og skjaldbökur og Boa auk þess að þarna voru hænur og gæsir eins og allstaðar.

Eftir þetta voru það Béin þrjú: Bað, bjór og borða en matur og vín vour þarna til algerrar fyrirmyndar eins og reyndar allt annað.

Já þetta er sannarlega lúxuslíf í regnskóginum. Maturinn rosalega góður en hér er flest eldað á franska vísu en þó er boðið upp á fína Madagaskar rétti þegar maður er í stuði fyrir að prófa þá.

Við fórum í kvöldgöngu með Pascal og Bernadette. Við máttum ekki fara inn í þjóðgarðana að kvöldi til vegna þess að þeir eru lokaðir af hræðslu við veiðiþjófa. Við þurftum því að ganga á götunni og lýsa inn í skóginn. Allavega þá mættum við galvösk með vasaljós. Katherine, Fiona og Mike fóru ekki. Það var smá vísbending um að þetta væri ekki spes ganga þar sem fararstjórinn sleppti því að fara. Við sáum allavega ekki mikið. Sáum glitta í augu á einum músar lemúr og sáum tvö kameljón sem við höfum ekki séð áður. En það var samt gaman að ganga í myrkrinu og hlusta á frumskóginn. Pascal og Bernadette reyndu alveg eins og þau gátu að finna eitthvað fyrir okkur að sjá en það var bara ekkert.

IMG_2615 35 years old ant colony

Við vorum orðin ansi svöng þegar við komum til baka og bjórþyrst. Ótrúlegt magn af bjór sem við innbyrgðum í þessari ferð ;) Katherine var farin að finna vel á sér þegar við komum.

Næsta morgun var haldið snemma af stað og keyrt yfir í Mantadia garðinn. Pascal og Bernadette komu með okkur eins og áður. Þessi skógur var þéttari og var nánast ósnertur af mannavöldum. Það var meiri ganga þennan daginn. Meiri ganga upp á við og í gegnum ótroðnar slóðir. Við vorum ekki búin að ganga lengi þegar við sáum red breasted lemúr. Það er alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að fylgjast með lemúrum. Maður þurfti reyndar sjónauka til að sjá þessa bærilega. Það var einn lítill trítill með mömmu sinni en hann var greinilega að reyna sín fyrstu skref sjálfur. Hann var bara svo klaufalegur að við vorum öll skíthrædd um að hann myndi detta.

Við heyrðum einnig í Indri og Örn tók upp hljóðið. Þetta var alveg magnað. Það er ótrúleg tilhugsun að vera í regnskógi í Afríku að hlusta á köll Indri Lemúra sem eru alveg yndisleg hljóð.

Pascal og Bernadette leiddu okkur um skóginn og við sáum fleirri lemúra, t.d. Sifaka sem sat hátt hátt upp í tré. Einnig sáum við eftir að hafa ruðst í gegn um skóginn Sifaka Lemúra sem voru rétt hjá okkur. Við sáum svo risamargfætlu og frosk sem var í holu inni í tré. Það var búið að vara okkur við að við gætum fengið blóðsugur á okkur því vorum við öll með sokkana yfir buxurnar, mjög smart. Örn sagðist hafa fundið fyrir einni á kinninni á sér en náði að slá hana af áður en hún festi sig. Það getur hins vegar verið smá vesen að ná þeim af ef þær ná að festa sig á mann. Það borgar sig ekki að toga í þær því þá blæðir mikið heldur á að hella salti eða setja moskító vörn á þær til að þær sleppi takinu. Svo er líka hægt að leyfa þeim bara að klára sitt í rólegheitum.

IMG_2258 Dancing Sifaka

Þetta var virkilega skemmtileg ganga. Það var þrælgaman að ryðjast í gegn um skóginn og komast þannig að lemúrunum. Það var gaman að hafa svolítið fyrir hlutunum.

Við áttum svo frían tíma eftir gönguna og hádegismatinn. Við ákváðum að fara aftur á lemúra eyjuna. Þegar við komum á fyrstu eyjuna beið einn Raftalemúr eftir okkur alveg við matarkassann þannig að þeir vita alveg um hvað þetta snýst. Við fórum svo bara tvö á kanó og hittum þar Veru sem hafði líka skellt sér aftur. Við höfðum með okkur banana. Það var gaman að róa svona bara ein og vera bara úti í náttúrunni og finna friðinn. Lemúrarnir komu svo hlaupandi að okkur þegar við komum á Ringtail eyjuna. Við gáfum þeim banana og bananahýðin líka. Sá sami og kom í bátinn fyrri daginn mætti aftur út í bát. Hann kom alveg upp að Elínborgu og starði í augun á henni eða kannski var hann bara að spegla sig í sólgleraugunum. Allavega vann hann störukeppnina því Elínborg varð hrædd og bakkaði og þá fór hann. Hann minnti svolítið á Viggó þegar hann er alveg að fara að bíta.

IMG_2697 “Bring out those bananas!”

Eftir siglinguna gengum við framhjá krókódílabýlinu. Þar hittum við fyrir nokkra starfsmenn sem heilsuðu okkur og reyndu að kenna okkur ný orð í Malagasy. Við gengum svo í átt að hótelinu eftir stígum í skóginum. Örn Jones vildi prófa eitthverja leið sem Elínborgu leist ekkert á því hún var bara í stuttbuxum og sandölum. Við tókum þó hliðarstíginn og Elínborg fékk smá skeinu á löppina og varð hrædd um að rata ekki aftur á hótelið og verða föst í skóginum í myrkrinu. En við rötuðum nú heim á endanum

Við drifum okkur svo í sturtu og svo á barinn. Fengum okkur THB og spjölluðum við Chris og Jane. Það var mjög skrítið að þetta væri síðasta kvöldið. Við hópurinn vorum búin að safna saman pening í þjórfé fyrir Catherine og Mamy. Þetta var notalegt kvöld. Catherine tók mynd af hópnum af svölunum yfir veitingastaðnum. Á myndinni var eins og Ian hefði skott og var úrskurðaður White Bearded Lemúr, frekar fyndið. Mamy var með okkur þar sem við buðum honum í mat og hafði hann pantað sér Zebu í forrétt og aðalrétt :) Clive hélt ræðu og gaf Catherine 1.300 aa með flísatöng því þetta voru vel notaðir seðlar. Þar var hann að gera grín af því að suma seðlana langar mann ekkert að snert þeir eru svo hrikalega skítugir. Síðan afhenti hann Mamy sitt þjórfé og Mamy hélt ræðu. Hann var mjög hjartnæmur og sagði að þetta hefði verið besti hópurinn sem hann hefði farið með. Catherine lofaði að láta okkur vita ef hann segði þetta við alla hópana :) Það var allavega gaman að sjá Mamy svona glaðann og smá hífaðann. Það var mjög gaman þetta kvöld og allir mjög kátir.





Back to Tana

9 10 2007

Nú erum við í Tulear og erum að bíða eftir flugi til Tana. Við erum sem sagt búin að fara í bátinn aftur og í þetta skiptið var betra í sjóinn og ekki farið eins hratt og engir urðu fyrir óþægindum eins og í fyrri ferðinni. Mennirnir á Zebu kerrunum voru betri við dýrin í þetta skiptið þannig að ferðin í heild sinni var öll mun skemmtilegri. Við sitjum hérna á hóteli í Tulear og bíðum þess að fara á flugvöllinn.

Elínborg er auðveld bráð fyrir sölufólk og krakkana. Hún hikar alltaf og þá ná allir að hópast að henni. Á kúkaströndinni lenti hún í því að heill hellingur af börnum umkringdu hana og hrópuðu eitthvað til hennar. Oftast eru þau að biðja um bon bon (nammi á frönsku). En það er ekki sniðugt að gefa þeim því þau fara ekki til tannlæknis og eiga ekki tannbursta. Okkur er sagt að Frakkarnir gefi þeim nammi en þeir virðast hafa marga ósiði hérna. Mamy segir okkur að sumstaðar hafi fólk alveg farið að reiða sig á betl peninga frekar en að vinna venjulega vinnu. Það er verið að reyna að taka fyrir þetta og ferðamenn beðnir að vera ekki að gefa betlurum.

IMG_2606 Me with Mamy, our tour guide

Stundum sér maður samt örvæntingu í augum fólksins hérna. Ein stelpa sem við sáum á leiðinni frá Berenti til Fort Daupin horfði á okkur sem eins konar áfellisaugnarráði eins og hún væri að segja “af hverju eru þið þarna inni í rútunni og hafið það gott en ég föst hérna?”. Þegar rútan fór aftur af stað var eins og við værum að skilja hana eftir. Á þessum sama stað var lítill allsber strákur og það blæddi líltillega úr typpinu hans. Hann var eitthvað svo varnarlaus. En Malagasy börnin eru fallegustu börn sem við höfum augum litið.

Við höfum reynt að læra eins mikið í Malagasy og við ráðum við. Til dæmis getum við pantað drykki, heilsað og þakkað fyrir okkur. Á hótelinu í Ranahiri þá hló ein starfsstúlkan að Erni þegar hann reyndi að tala Malagasy og leiðrétti hann miskunarlaust. Það eru nefninlega mikið af mállýskum hérna þannig að sömu hlutirnir eru ekki sagðir nákvæmlega eins eftir því sem við ferðumst um. Við höfum líka lært að telja upp í tíu, rosa dugleg :)

Það eru búin að vera töluverð veikindi í hópnum. Nánast allar konurnar hafa orðið veikar að einhverju leiti. Mamy varð mjög veikur í ferðinni. Líklega varð hann veikur í rútunni til Berenti þegar við höfðum loftkælingu. Hann missti röddina og var með töluverðan hita. Hann dró samt ekkert af sér því hann var hálf hræddur um að verða rekinn greyið maðurinn. Þetta var leiðinlegt fyrir alla því við vildum auðvita bara að hann tæki sér einn dag í rúmminu til að jafna sig.

Það var afar gott að vera þennan eina og hálfa dag í Anakao og gera fátt annað en að sóla sig, fara í nudd, teiga góðar veigar og borða góðan mat. Þetta var alveg passlegt sólarstrandarfrí.

IMG_2409 Eínborg in a Tuk Tuk

Við höfðum 4 tíma til að drepa í Tulear þar sem lítið er til dundurs. Tulear er fátækasta borg landsins og lítið fyrir túrhesta að gera. Víð fórum túr um bæinn sem tók 10 mínútur. Og svo á ávaxtamarkaðinn. Markaðurinn bar þess merki að lítið er um fyrr nefnda hesta. Mest bara matvara á boðstólunum og lítið um bruðl varning. Þó var smá gata með nokkrum munum og þar keyptum við kameljón og lemur úr Sesal trefjum. Við fengum svo inni á eina hótelinu með sundlaug þar sem við snæddum hádegisverð. Við drepum svo tímann með því að æfa okkur í Malagasy á meðan aðrir fóru í sund. Við tók svo 70 mínútna flug til Tana þar sem við gistum eina nótt á Tana Plaza. Fyrst þegar við komum á Tana Plaza fannst okkur þetta svona ok hótel en núna þegar við vorum búin að kynnast landinu sáum við hversu mikið lúxus hótel þetta í rauninni var, minnti okkur bara á Holtið, þjónustan var alveg frábær og á veitingastaðnum var hún eiginlega bara of frábær. Örn fékk sér geitaostarétt sem var með mikið af rjómaosta-geitaosti, full mikið þó hann væri góður. Elínborg fékk sér grænmetis Canallone eins og fyrsta kvöldið. Þetta var Canallone þar sem búð var að skipta út pastanu fyrir grænmeti. Gumsið var vafið inn í gúrku, gulrót og zuccini og kom svona ljómandi vel út.





Tulear and Ranahiri

4 10 2007

Jæja við flugum frá Fort Dauphine til Tulear sem er vestan megin á eyjunni. Það var sem betur fer stutt flug. Okkur leist ekkert á vélina fyrst. Hún leit út fyrir að vera gömul rella með utanáliggjandi spaða eins og á einkaflugvél. Við vorum sein út í vél og fengum ekki sæti saman. Elínborg endaði á að sitja fremst í vélinni í sæti sem var á móti öllum hinum. Þannig að hún kom öfug til Tulear. Þar var bara fínt að snúa svona, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Þegar við komum til Tulear þá biðu Rasulu og Honore eftir okkur í rútunni okkar. Þeir voru búnir að keyra alla leið frá Tana á misgóðum vegum. Við okkur tók svo fjögurra klukkustunda keyrsla til þorpsins Ranahiri sem liggur á mörkum Isholo þjóðgarðsins sem við vorum að fara að skoða. Rútuferðin var hræðileg, allir voru með opna gluggana og rokið í rútunni var þvílíkt. Eftirá kom í ljós að nánast öllum fannst rokið of mikið en allir of kurteisir til að byðja um að gluggunum væri lokað, svona er mannkynið.

IMG_2407 Air Madagascar

Við keyrðum í gegn um þorp á leiðinni þar sem fram fer sala á hinum ýmsu steinum, zafírum og slíku. Í þessum bæ er víst mafía og hægt að sjá menn með skjalatöskur handjárnaðar við úlnliðina. Það er víst töluverð byssueign þarna. Um leið og verðmætir steinar byrjuðu að finnast þarna komu Asíumenn, Tælendingar og Malasíumenn og settu upp bækistöðvar. Þeir kaupa svo alla steina sem eitthvað er varið í og flytja þá úr landi. Síðan flytja þeir drasl til baka og selja ferðamönnum. Ekki bætti svo ástandið þegar Asíumennirnir fóru að greiða heimamönnum með byssum og byssukúlum. Katharine sagði okkur að bílstjórinn sem hún var með síðast hafi viljað hafa alla glugga lokaða og brunaði í gegn af hræðslu við fólkið þarna. Við sáum samt engan hasar þannig en andrúmsloftið var þó áþreifanlega öðruvísi þarna. Það var mikið um að vera, mikið af lömpum til að skoða steinana og einnig voru tælenskar búðir á víð og dreif.

IMG_2525 Scary town

Það var mikil gleði þegar við komum á hótelið í Ranahiri. Hótelið er það eina í eigu Malagasy fólks sem var mjög ánægjulegt. Þetta var rosa flott hótel, lobbýið og veitingasalurinn mjög glæsilegur og herbergin fín. Það sem var samt skemmtilegast var að hótelið var í miðju þorpinu og mikið mannlíf fyrir utan garðinn. Það er mjög gaman að vera meðal heimamanna.

Maturinn var ekkert spes. Fyrsta kvöldið fengum við kartöflugratín í forrétt og svo Zebu með hrísgrjónum í aðalrétt. Enn einu sinni Zebu kjöt. Samt vill maður ekki vera dónalegur því þeim finnst þau væntanlega vera að gefa okkur það besta sem þau hafa uppá að bjóða.

Það var svo farið snemma að stað morguninn eftir, brottför kl. 7:30 til að ná göngu fyrir heitasta tímann. Við keyrðum í átt að gili sem heitir Maki Canyon. Maki þýðir ringtail lemúr á Malagasy. Við hliðina er svo Rat Canyon en þar finnast þó engar rottur eins og búast mætti við. Það eru hins vegar lemúrar í Maki Canyon og þar gengum við inn. Þetta var ganga aðeins á fótinn, inn mjög hátt gil þar sem lækur rennur í gegn um gilið og við rætur gilsins er lítill skógur þar sem lemúrarnir dvelja. Við sáum kameljón, lemúra, kyrkislöngu og annan minni snák. Með okkur var Tina leiðsögumaður svæðisins og hann þekkti svæðið mjög vel. Hann var líka flinkur í að veiða snáka. Þegar við vorum að ganga til baka þá hittum við fyrir hóp af börnum sem voru að selja okkur allskonar leirdýr sem þau voru að búa til. Þau voru bara að nota leirinn í umhverfinu sem þau bökuðu í sólskininu. Þau voru með svín, kamljón, krókódíla og Zebu. Við keyptum fjögur dýr, þrjú svín og eitt kameljón. Við keyptum bara eitthvað til að geta styrkt börnin. Á leiðinni á hótelið byrjuðu dýrin strax að molna. Daginn eftir voru komnar sprungur í þau öll. Við urðum að skilja þau eftir því þau voru öll ónýt en við náðum myndum af þeim bæði heilum og einnig sprungnum. Það höfðu allir sama að segja og það var mikið hlegið af þessum kaupum og Katharine lofaði að þegja yfir þessu þegar hún kæmi með næsta hóp til þess að skemma ekki viðskiptin fyrir krökkunum.

IMG_2474 The fancy statues

Við fórum svo í seinniparts göngu þar sem gengið var í rúman klukkutíma í mjög fallegu landslagi en þarna er mikið af klettum og ýmiskonar afleiðingum jarðhræringa en þetta er merkilegt svæði jarðfræðilega en við erum búin að gleyma af hverju :)

Eftir klukkutíma göngu komum við að æðislegri tjörn þar sem við fórum í sund. Katharine var búin að segja okkur að þessi staður væri eins og úr Bounty auglýsingu og að var sko alveg satt. Vatnið var tært og í kring voru pálmatrén með kókoshnetum og mikið fuglalíf í kring. Þetta var því alger vin í nokkuð fátæklegum gróðri þarna í kring. Það var alveg frábært að busla um og dýfa sér úr klettunum og kæla sig í hitanum sem fór stigvaxandi.

IMG_2460 We found paradise

Um kvöldið var svo borðaður kjúlli sem vakti lukku okkar því þá sluppum við að borða Zebu. Við vorum orðin lúin og Elínborg var farin að sofa kl. 21 sem var líklega það snemmsta í ferðinni.

Næsta dag fórum við aftur inn í þjóðgarðinn og gengum að tveimur uppsprettum. Önnur hét “Svarta vatnið” af því að það er djúpur hylur og sólin skín ekki í hann og þar var vatnið ískalt. Hin uppsprettan heitir “Bláa vatnið” en hún var grynnri og bjartari og vatnið mun hlýrra. Við hjónin vorum ekki í stuði fyrir sund þarna en þeir voru þó fleirri sem fóru útí. Þessi göngutúr var mjög skemmtilegur og toppurinn var svo að við sáum lemúra í restina, bæði ringtailed og Brúna Lemúra. Þessir brúnu voru að skella sér yfir lítinn læk. Við sátum hinumegin og horfðum á þá skoppa yfir lækinn beint fyrir framan okkur og náðum meira að segja vídeó af þeim skoppa yfir. Við vorum svo heppin að vera bara nokkur þarna og manni fannst maður vera í svo mikilli nálægð með þeim þar sem við sátum 2-3 metra frá þeim en þeir eru að sjálfsögðu algerlega villtir þessir lemúrar. Þetta var ekkert smá gaman, þvílíkar dúllur. Hoppuðu með “hendurnar” upp og svo fyndnir á svip. Þetta var æði.

IMG_2497

Um kaffileitið var farið af stað að skoða safn þar sem farið var yfir jarðsögu þjóðgarðsins og síðan átti að horfa á sólsetrið á einhverjum fallegum stað þar sem sólin sest á milli steinanna. Elínborg fór á safnið en Örn varð eftir og horfði á fjórðungsúrslit á HM í rugby á milli Englendinga og Ástrala með tveimur af Bretunum í hópnum. England vann og það gladdi alla í hópnum gríðarlega. Safnið var hins vegar mjög spes. Þetta var risa hús, mjög flott en byggt langt frá þorpinu úti í auðninni. Safnið var á einni hæð og þetta voru eiginlega bara myndir með textum undir. Það var bara fínt að sjá það en ekkert sérstakt. Það var svo keyrt að þessum spes stað til að horfa á sólsetrið. Þarna var steingluggi af náttúrunnar hendi og sólin á að koma í gluggann þegar hún sest. Elínborg nennti nú ekki að troða sér að glugganum því þarna var slatti af túristum, meira en við höfðum verið vör við á öðrum stöðum. Sólsetrið var fallegt eins og reyndar allstaðar.

Við fórum svo með Clive og Julie á The Happy Lemur sem er bar hinumegin við götuna við hótelið. Það var æðislegt að sitja þarna og drekka ískaldan THB í þessu yndislega þorpi. Þarna voru heimamenn að kaupa sér drykki og það var mikið líf og fjör. Þarna voru tveir kettir sem áttu greinilega heima þarna á barnum og þeir snigluðust í kring um okkur og nutu athyglinnar. Það varð rafmagnslaust þarna í smá tíma eins og verður stundum hérna því hér er allt rafmagn keyrt með rafölum en heimamenn voru fljótir að kveikja á kertum fyrir okkur. Það slokknaði á kertinu í golunni og þá hannaði barþjónninn skýli fyrir kertið úr plastflösku sem hann skar botninn úr og setti á kertið. Þetta er svo yndislegt fólk hérna, maður segir það aldrei nógu oft. Þessi stund á The Happy Lemur er ein af okkar bestu stundum í ferðinni.

Við vorum svo aftur komin í rúmið um kl. 21, hörkutól.

Við fórum svo aftur af stað kl. 6:30 morguninn eftir og keyrðum til baka til Tulear með nokkrum myndastoppum. Í einu stoppinu sáum við nokkra sifaka uppi í tré í hádegishvíld. Maður bara fær aldrei nóg af þessum lemúrum. Þegar við komum við Tulear þá var stefnan tekin á bátsferð sem tók okkur til Anakao. Til þess að komast út í bátinn fórum við á Zebu kerrum yfir flæðamálið. Við lentum í kerru þar sem aumingja dýrin voru beitt harðræði af tveim smástrákum sem börðu þau áfram. Gripirnir voru komnir með svöðusár á bakið eftir drengina sem lömdu og lömdu þá af ástæðulausu. Það var augljóst að dýrin höfðu farið þessa leið hundrað sinnum áður og rötuðu alveg og því engin ástæða til að láta svona. Þetta var hræðilegt að vera þarna í kerrunni, okkur langaði helst að taka prikin af strákunum og lemja þá með þeim. Ian var með okkur í kerrunni og hann ræddi við Catherine og hún ætlaði að taka þetta upp við yfirmanninn. Á bakaleiðinni var tekið sérstaklega fram að ef eitthvað dýr yrði slegið yrði ekkert greitt fyrir ferðina. Báturinn sem við fórum í var spíttbátur með tveim risastórum utanborðsmótorum. Ferðin var fín fyrir flesta en Örn lenti í því að sitja í staninum þar sem nef bátsins lamdist í öldurnar og hann fékk töluvert í bakið. Gaurarnir sem stýrðu ákváðu fyrst þeir voru seinir fyrir að gefa allt í botn þannig að báturinn lamdist í öldurnar, mun meira en nauðsynlegt var. Frekar leiðinlegt því þetta var alveg óþarfi og þeir bara að sýna sig.

IMG_2538 Our ride to the boat

Það er hins vegar sagt að fall sé fararheill og það átti heldur betur við um þessa för því nú vorum við komin í paradís. Anakao er æðislegt strandhótel með hvítum sandi, grænbláum sjó og börum undir stráþökum. Við gistum svo í litlum kofum, dreifðum í kring um aðal bygginguna og þeir eru æði. Við erum loks með hjónarúm en við höfum yfirleitt verið með sitthvort rúmið. Mjög kósí. Við komum okkur fyrir og svo var hist og borðað. Við fengum okkur pizzu og bjór sem var afar kærkomið og pizzan reyndist vera alveg til fyrirmyndar. Tíminn í Anakao var algerlega óskipulagður þannig að við gátum gert nákvæmlega þar sem okkur datt í hug og við byrjuðum á að skella okkur í sjóninn sem var bærilega heitur og hressandi. Þegar við komum úr sjónum sáum við Clive og Julie að skoða dúka sem heimamenn voru að reyna að selja þeim og Elínborg keypti einn af þeim. Mjög fallegur og ódýr. Þegar búið var að kaupa dúkinn komu stelpur með slæður og Elínborg vildi kaupa eina en hún vildi selja henni tvær. Stelpan varð mjög pirruð þegar við vildum bara eina slæðu. Örn fékk sér svo nudd á ströndinni en var ein heimastúlkan að bjóða nudd sem var mjög fínt og Elínborg keypti sér hálsmen á meðan. Það var yndislegt að vera úti í sólinni og njóta lífsins og slappa aðeins af eftir stífa dagskrá dagana á undan.

IMG_2563 Hot babe on the beach!

Um kvöldið borðuðum við svo öll saman þar sem við buðum uppá Tópas snafs sem vakti mikla lukku og fólk var forvitið um hvar hægt væri að kaupa Tópasinn. Julie, Naomi og herforinginn voru sérstaklega ánægð með Tópasinn en Naomi vildi meina að þetta myndi laga kvef sem hún var með.

Það er sérstaklega gaman að sitja og spjalla við Clive og Julie og svo Mike og Fionu. Þau eru duglegri en aðrir að sitja eftir matinn og fá sér einn öl eða tvo. Þetta eru ótrúlega dugleg hjón sem eru búin að ferðast út um allan heim og sjá ótrúlega hluti. Þetta eru alger hörkutól og virkilega gaman að hafa kynnst þessu fólki. Vera til dæmis flúði heimalandið ásamt syni sínum. Hún vildi ekki að hann þyrfti að fara í herinn í Tékkóslóvakíu og vildi ekki þessar stöðugu njósnir um borgarana. Hún sagði okkur að hún hefði upplifað þessar njósnir aðeins á Íslandi því hún þurfti alltaf að gefa upp kennitölu og henni var ekki vel við því. Hún skildi eftir móður sína og alla fjölskyldu fyrir betra líf fyrir son sinn. Maður getur ekki annað en dáðst af þessu fólki og maður sér hvað maður hefur það gott í sínu lífi.

IMG_2579 Life sure is good!

Í dag er svo 08.10.2007 og við ákváðum að sofa út og sleppa einni ferð. Það var farið út í eyju hérna úti fyrir að skoða stórar flamengó breiður og snorkla fyrir utan eyjuna. Það var hrikalega gott að sofa aðeins lengur. Við fórum svo í morgunmat um 9:30 en það tók dágóðan tíma að fá hann. Það gengur allt mora mora hérna. Við erum svo bara búin að hafa það kósí í sólbaði. Stefnan er svo að fara og skoða fiskimannaþorp hér rétt hjá. Það þarf því miður að fara yfir strönd þar sem heimanenn kúka í fjöruborðið. Stöndin getur því verið full af kúk sem á eftir að skolast út :)

Eftir morgunmatinn fórum við svo bæði í nudd á ströndinni hjá henni Silvíu. Það var notalegt að fá nudd og finna þreytuna líða úr líkamanum. Við gengum svo yfir í fiskimannaþorpið en þó alveg án þess að stíga á kúk og sáum í raun bara einn. Við komumst að því að þeir fara í háfjöru þannig að allt skolast mjög fljótt út og ströndin er því frekar hrein. Þetta var krúttlegt þorp. Börnin voru að leika sér í sjónum hlaupandi á eftir og undan öldunum. Elínborg keypti dúk á leiðinni heim úr þorpinu og borgaði fyrir 40.000 aa sem er frekar mikið fyrir dúka hérna en hún er ekki góð í að prútta enda eru þetta ekki nema um 1.300 kr.

IMG_2567 Massage on the beach

Það borðuðu svo allir saman kvöldmat en fyrir matinn komu starfsmenn á hótelinu og dönsuðu og sungu fyrir okkur Afríska eða öllu heldur Malagasy söngva. Hótelstýran (kona eigandans) var þvílíkt flott, hún náði að dilla sér á ótrúlegan hátt. Strákarnir voru svo sem ekki síðri, berir að ofan og allt. Örn var svo dregin út á dansgólfið sér til mikillar ánægju. Síðan sátu sumir frameftir þangað til komið var að því að taka rafmagnið af en það var kl. 22. Við hjónin sátum þá aðeins fyrir utan kofan okkar og hlustuðum á öldurnar. Að er ekki annað hægt en að líða vel hérna í þessari Paradís.

IMG_2558 Stiff as a plank ;)





Boat trip and a school visit

3 10 2007

Þennan dag var Elínborg heima en hún var ekki í fullu fjöri en ég fór í bátsferð. Við fórum af stað um hálf níu og keyrðum að lítilli höfn þar sem biðu tveir flatbotna bátar með utanborðsmótor. Þegar allir voru komnir í vesti var brunað af stað yfir lítið vatn en svo tók við misþröng á með fenjagróðri á bökkunum. Við skimuðum eftir krókódílum en sáum enga. Við sáum hins vegar mikið af fuglum. Það var töluverður vindur þannig að það puðraði töluvert yfir okkur og maður varð töluvert blautur. Ég nennti ekki að taka með regnjakka sem okkur var bent á að taka með en það kom ekki að sök því að það var heiðskýrt og sólin og vindurinn þurkaði okkur fljótt.

IMG_2382 On the boat

Við fórum framhjá einu fiskimannaþorpi þar sem börnin voru eins sæt og allstaðar annarsstaðar. Eitthvað hefur dregið saman fiskeríið hjá köllunum undanfarið. Það er Suður-Afrískt námafyrirtæki að byggja stíflu og þurfa að sprengja mikið og það fór illa í fiskinn sem dó allur. Þeir fá víst bætur kallarnir. Þetta fyrirtæki er að grafa eftir títaníum og það þarf mikið vatn til að skola bergið eða sandinn. Þessar framkvæmdir hafa verið mikil lyftistöng fyrir Fort Dauphin en það eru alltaf einhverjar aukaverkanir sem fylgja svona framkvæmdum eins og við þekkjum heima af Íslandi.

IMG_2384 Future fishermen

Jæja áfram með ferðina. Við sigldum áfram í um 50 mínútur en fórum þá um borð í fína nýja Pajero jeppa sem tóku okkur framhjá stíflunni og inn í annað þorpið sem til stóð að heimsækja. Þar mættu okkur skítug börn sem báðu um “bon bon”. Okkur hafði verið sagt að börnin þarna væru illa haldin en þau virtust í þokkalegum holdum en þó sást eitt og eitt með loftmaga. Konur sáust víða að elda við eld inni í skraufaþurrum kofunum. Ég bara vona að þær hafi haft eldvarnarteppi :)

Við trítluðum í gegnum þorpið og upp á litla hæð þar sem skólinn var. Þetta voru tvö þokkaleg steinhús skipt í tvennt þannig að það voru fjórar skólastofur allt í allt. Við byrjuðum á að kíkja inn til eldribekkinga. Þar sátu börn tíu til þrettán ára og var þetta útskriftarbekkur úr barnaskóla. Ef þau halda áfram námi fara þau til Fort Dauphin. Krakkarnir voru snyrtilegir og þægir enda skólastjórinn að kenna þeim. Við færðum bækur, penna og liti og bentum á kort og sögðum hvaðan við kæmum. Krakkarnir læra allt á frönsku sem allir virðast kunna. Þegar við komum voru þau að læra hornafræði og glósurnar litu vel út og skriftin falleg. Næst litum við inn til minnstu barnanna. Þau virtust vera í meiri leikskóla en hin en kannski var bara annig tími þegar við komum. Þessir krakkar voru líklega fimm til sjö ára og sungu tvö falleg lög fyrir okkur með handahreyfingum og öllum pakkanum. Við launuðum þeim greiðann með því að syngja “Höfuð, herðar…” og hlutum mikið klapp fyrir. Eini ljóðurinn á skólaferðinni var að einn krakkinn sagði Mamy að skólastjórinn seldi bækurnar sem við kæmum með. Benuoir sagði hins vegar að hann færi bara með þær heiim til að passa upp á þær. Maður bara trúir engu misjöfnu upp á þetta fólk þannig að ég tók þessa skýringu gilda. Við yfirgáfum loks þorpið og stefndum á ströndina. Þangað var hálftíma ganga framhjá hrísgrjónaökrunum þar sem fólk veifaði til okkar eins og allstaðar þar sem við förum. Einnig sáum við nokkuð af eðlum sem spókuðu sig á heitum steinunum og biðu eftir engisprettum í hádegismat.

IMG_2392 One of the older students

IMG_2393 …and the yonger class

Við höfðum gengið nokkuð upp á við þannig að útsýnið yfir ströndina var frábært þegar við fórum að færast aftur niður á við. Þetta var klettaströnd með fallegri vík fullri af hvítum sandi. Vorum ekki lengi að rífa okkur úr og henda okkur í sjóinn sem var yndislegur. Eftir ryk og skít og misgóðar sturtur var ansi gott að synda og skola af sér. Engin aðstaða var á ströndinni en það kom ekki að sök. Eftir sundið var lagst í sólbað og kroppurinn þurkaður. Uppi í klettunum sáum við plöntur sem éta skordýr og eftir prílið upp rákum við augun í hnúfubak að leika sér í briminu úti fyrir ströndinni.

IMG_2397 …on the beach

Þegar allir voru orðnir þurrir var aftur haldið af stað og í þetta sinn var þrammað í þrjú korter að seinna þorpinu sem til stóð að heimsækja. Það stóð við ósa stífluðu árinnar. Mennirnir virtust vera á sjó en konurnar heima við og einnig þau börn sem ekki fara í skóla. Mamy segir okkur að víða snúist allt um Zebu þannig að börn eru send að gæta þeirra frekar en að fara í skóla. Þarna virtust þó þau börn sem skrópuðu í skólann ekki hafa neitt betra að gera. Benoire sagði okkur frá hefðum fólksins, hvernig mennirnir fórna belju í upphafi vertíðar og fleira í þeim dúr. Til dæmis mega konurnar ekki mála sig eða greiða á meðan eiginmaðurinn er á sjó og áður fyrr máttu þær ekki fara út úr húsi.

IMG_2386 Simple living

Við röltum í gegn um þorpið og fórum svo með bát yfir árósinn þar sem við snæddum hádegisverð. Það þótti ekki við hæfi að gera það þar sem þorpsbúar sáu til. Það sem aðallega veiðist á þessum slóðum er túnfiskur og humar, hvorutveggja til útflutnings. Eitthvað er líka veitt af rækju og öðrum tegundum.

Eftir hádegismatinn lagði maður sig aðeins áður en haldið var heim. Eina markverða á heimleiðinni var að ég sá fyrsta almennilega fótboltann í ferðinni. Hinir höfðu allir verið saman vöðlað plast dótarí með neti utan um.

Á heimleiðinni var svo stoppað í kjörbúð sem innihélt flest sem maður þarf. Fyrir utan kom lítill business maður, líklega um tíu ára, sem plataði inn á mig armbandi. Ég keypti þó bara eitt á 5.000 aa því mig grunaði að Elínborg væri búin að kaupa nokkur.