Þennan dag var Elínborg heima en hún var ekki í fullu fjöri en ég fór í bátsferð. Við fórum af stað um hálf níu og keyrðum að lítilli höfn þar sem biðu tveir flatbotna bátar með utanborðsmótor. Þegar allir voru komnir í vesti var brunað af stað yfir lítið vatn en svo tók við misþröng á með fenjagróðri á bökkunum. Við skimuðum eftir krókódílum en sáum enga. Við sáum hins vegar mikið af fuglum. Það var töluverður vindur þannig að það puðraði töluvert yfir okkur og maður varð töluvert blautur. Ég nennti ekki að taka með regnjakka sem okkur var bent á að taka með en það kom ekki að sök því að það var heiðskýrt og sólin og vindurinn þurkaði okkur fljótt.
Við fórum framhjá einu fiskimannaþorpi þar sem börnin voru eins sæt og allstaðar annarsstaðar. Eitthvað hefur dregið saman fiskeríið hjá köllunum undanfarið. Það er Suður-Afrískt námafyrirtæki að byggja stíflu og þurfa að sprengja mikið og það fór illa í fiskinn sem dó allur. Þeir fá víst bætur kallarnir. Þetta fyrirtæki er að grafa eftir títaníum og það þarf mikið vatn til að skola bergið eða sandinn. Þessar framkvæmdir hafa verið mikil lyftistöng fyrir Fort Dauphin en það eru alltaf einhverjar aukaverkanir sem fylgja svona framkvæmdum eins og við þekkjum heima af Íslandi.
Jæja áfram með ferðina. Við sigldum áfram í um 50 mínútur en fórum þá um borð í fína nýja Pajero jeppa sem tóku okkur framhjá stíflunni og inn í annað þorpið sem til stóð að heimsækja. Þar mættu okkur skítug börn sem báðu um “bon bon”. Okkur hafði verið sagt að börnin þarna væru illa haldin en þau virtust í þokkalegum holdum en þó sást eitt og eitt með loftmaga. Konur sáust víða að elda við eld inni í skraufaþurrum kofunum. Ég bara vona að þær hafi haft eldvarnarteppi :)
Við trítluðum í gegnum þorpið og upp á litla hæð þar sem skólinn var. Þetta voru tvö þokkaleg steinhús skipt í tvennt þannig að það voru fjórar skólastofur allt í allt. Við byrjuðum á að kíkja inn til eldribekkinga. Þar sátu börn tíu til þrettán ára og var þetta útskriftarbekkur úr barnaskóla. Ef þau halda áfram námi fara þau til Fort Dauphin. Krakkarnir voru snyrtilegir og þægir enda skólastjórinn að kenna þeim. Við færðum bækur, penna og liti og bentum á kort og sögðum hvaðan við kæmum. Krakkarnir læra allt á frönsku sem allir virðast kunna. Þegar við komum voru þau að læra hornafræði og glósurnar litu vel út og skriftin falleg. Næst litum við inn til minnstu barnanna. Þau virtust vera í meiri leikskóla en hin en kannski var bara annig tími þegar við komum. Þessir krakkar voru líklega fimm til sjö ára og sungu tvö falleg lög fyrir okkur með handahreyfingum og öllum pakkanum. Við launuðum þeim greiðann með því að syngja “Höfuð, herðar…” og hlutum mikið klapp fyrir. Eini ljóðurinn á skólaferðinni var að einn krakkinn sagði Mamy að skólastjórinn seldi bækurnar sem við kæmum með. Benuoir sagði hins vegar að hann færi bara með þær heiim til að passa upp á þær. Maður bara trúir engu misjöfnu upp á þetta fólk þannig að ég tók þessa skýringu gilda. Við yfirgáfum loks þorpið og stefndum á ströndina. Þangað var hálftíma ganga framhjá hrísgrjónaökrunum þar sem fólk veifaði til okkar eins og allstaðar þar sem við förum. Einnig sáum við nokkuð af eðlum sem spókuðu sig á heitum steinunum og biðu eftir engisprettum í hádegismat.
Við höfðum gengið nokkuð upp á við þannig að útsýnið yfir ströndina var frábært þegar við fórum að færast aftur niður á við. Þetta var klettaströnd með fallegri vík fullri af hvítum sandi. Vorum ekki lengi að rífa okkur úr og henda okkur í sjóinn sem var yndislegur. Eftir ryk og skít og misgóðar sturtur var ansi gott að synda og skola af sér. Engin aðstaða var á ströndinni en það kom ekki að sök. Eftir sundið var lagst í sólbað og kroppurinn þurkaður. Uppi í klettunum sáum við plöntur sem éta skordýr og eftir prílið upp rákum við augun í hnúfubak að leika sér í briminu úti fyrir ströndinni.
Þegar allir voru orðnir þurrir var aftur haldið af stað og í þetta sinn var þrammað í þrjú korter að seinna þorpinu sem til stóð að heimsækja. Það stóð við ósa stífluðu árinnar. Mennirnir virtust vera á sjó en konurnar heima við og einnig þau börn sem ekki fara í skóla. Mamy segir okkur að víða snúist allt um Zebu þannig að börn eru send að gæta þeirra frekar en að fara í skóla. Þarna virtust þó þau börn sem skrópuðu í skólann ekki hafa neitt betra að gera. Benoire sagði okkur frá hefðum fólksins, hvernig mennirnir fórna belju í upphafi vertíðar og fleira í þeim dúr. Til dæmis mega konurnar ekki mála sig eða greiða á meðan eiginmaðurinn er á sjó og áður fyrr máttu þær ekki fara út úr húsi.
Við röltum í gegn um þorpið og fórum svo með bát yfir árósinn þar sem við snæddum hádegisverð. Það þótti ekki við hæfi að gera það þar sem þorpsbúar sáu til. Það sem aðallega veiðist á þessum slóðum er túnfiskur og humar, hvorutveggja til útflutnings. Eitthvað er líka veitt af rækju og öðrum tegundum.
Eftir hádegismatinn lagði maður sig aðeins áður en haldið var heim. Eina markverða á heimleiðinni var að ég sá fyrsta almennilega fótboltann í ferðinni. Hinir höfðu allir verið saman vöðlað plast dótarí með neti utan um.
Á heimleiðinni var svo stoppað í kjörbúð sem innihélt flest sem maður þarf. Fyrir utan kom lítill business maður, líklega um tíu ára, sem plataði inn á mig armbandi. Ég keypti þó bara eitt á 5.000 aa því mig grunaði að Elínborg væri búin að kaupa nokkur.
Leave a Reply