Tulear and Ranahiri

4 10 2007

Jæja við flugum frá Fort Dauphine til Tulear sem er vestan megin á eyjunni. Það var sem betur fer stutt flug. Okkur leist ekkert á vélina fyrst. Hún leit út fyrir að vera gömul rella með utanáliggjandi spaða eins og á einkaflugvél. Við vorum sein út í vél og fengum ekki sæti saman. Elínborg endaði á að sitja fremst í vélinni í sæti sem var á móti öllum hinum. Þannig að hún kom öfug til Tulear. Þar var bara fínt að snúa svona, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Þegar við komum til Tulear þá biðu Rasulu og Honore eftir okkur í rútunni okkar. Þeir voru búnir að keyra alla leið frá Tana á misgóðum vegum. Við okkur tók svo fjögurra klukkustunda keyrsla til þorpsins Ranahiri sem liggur á mörkum Isholo þjóðgarðsins sem við vorum að fara að skoða. Rútuferðin var hræðileg, allir voru með opna gluggana og rokið í rútunni var þvílíkt. Eftirá kom í ljós að nánast öllum fannst rokið of mikið en allir of kurteisir til að byðja um að gluggunum væri lokað, svona er mannkynið.

IMG_2407 Air Madagascar

Við keyrðum í gegn um þorp á leiðinni þar sem fram fer sala á hinum ýmsu steinum, zafírum og slíku. Í þessum bæ er víst mafía og hægt að sjá menn með skjalatöskur handjárnaðar við úlnliðina. Það er víst töluverð byssueign þarna. Um leið og verðmætir steinar byrjuðu að finnast þarna komu Asíumenn, Tælendingar og Malasíumenn og settu upp bækistöðvar. Þeir kaupa svo alla steina sem eitthvað er varið í og flytja þá úr landi. Síðan flytja þeir drasl til baka og selja ferðamönnum. Ekki bætti svo ástandið þegar Asíumennirnir fóru að greiða heimamönnum með byssum og byssukúlum. Katharine sagði okkur að bílstjórinn sem hún var með síðast hafi viljað hafa alla glugga lokaða og brunaði í gegn af hræðslu við fólkið þarna. Við sáum samt engan hasar þannig en andrúmsloftið var þó áþreifanlega öðruvísi þarna. Það var mikið um að vera, mikið af lömpum til að skoða steinana og einnig voru tælenskar búðir á víð og dreif.

IMG_2525 Scary town

Það var mikil gleði þegar við komum á hótelið í Ranahiri. Hótelið er það eina í eigu Malagasy fólks sem var mjög ánægjulegt. Þetta var rosa flott hótel, lobbýið og veitingasalurinn mjög glæsilegur og herbergin fín. Það sem var samt skemmtilegast var að hótelið var í miðju þorpinu og mikið mannlíf fyrir utan garðinn. Það er mjög gaman að vera meðal heimamanna.

Maturinn var ekkert spes. Fyrsta kvöldið fengum við kartöflugratín í forrétt og svo Zebu með hrísgrjónum í aðalrétt. Enn einu sinni Zebu kjöt. Samt vill maður ekki vera dónalegur því þeim finnst þau væntanlega vera að gefa okkur það besta sem þau hafa uppá að bjóða.

Það var svo farið snemma að stað morguninn eftir, brottför kl. 7:30 til að ná göngu fyrir heitasta tímann. Við keyrðum í átt að gili sem heitir Maki Canyon. Maki þýðir ringtail lemúr á Malagasy. Við hliðina er svo Rat Canyon en þar finnast þó engar rottur eins og búast mætti við. Það eru hins vegar lemúrar í Maki Canyon og þar gengum við inn. Þetta var ganga aðeins á fótinn, inn mjög hátt gil þar sem lækur rennur í gegn um gilið og við rætur gilsins er lítill skógur þar sem lemúrarnir dvelja. Við sáum kameljón, lemúra, kyrkislöngu og annan minni snák. Með okkur var Tina leiðsögumaður svæðisins og hann þekkti svæðið mjög vel. Hann var líka flinkur í að veiða snáka. Þegar við vorum að ganga til baka þá hittum við fyrir hóp af börnum sem voru að selja okkur allskonar leirdýr sem þau voru að búa til. Þau voru bara að nota leirinn í umhverfinu sem þau bökuðu í sólskininu. Þau voru með svín, kamljón, krókódíla og Zebu. Við keyptum fjögur dýr, þrjú svín og eitt kameljón. Við keyptum bara eitthvað til að geta styrkt börnin. Á leiðinni á hótelið byrjuðu dýrin strax að molna. Daginn eftir voru komnar sprungur í þau öll. Við urðum að skilja þau eftir því þau voru öll ónýt en við náðum myndum af þeim bæði heilum og einnig sprungnum. Það höfðu allir sama að segja og það var mikið hlegið af þessum kaupum og Katharine lofaði að þegja yfir þessu þegar hún kæmi með næsta hóp til þess að skemma ekki viðskiptin fyrir krökkunum.

IMG_2474 The fancy statues

Við fórum svo í seinniparts göngu þar sem gengið var í rúman klukkutíma í mjög fallegu landslagi en þarna er mikið af klettum og ýmiskonar afleiðingum jarðhræringa en þetta er merkilegt svæði jarðfræðilega en við erum búin að gleyma af hverju :)

Eftir klukkutíma göngu komum við að æðislegri tjörn þar sem við fórum í sund. Katharine var búin að segja okkur að þessi staður væri eins og úr Bounty auglýsingu og að var sko alveg satt. Vatnið var tært og í kring voru pálmatrén með kókoshnetum og mikið fuglalíf í kring. Þetta var því alger vin í nokkuð fátæklegum gróðri þarna í kring. Það var alveg frábært að busla um og dýfa sér úr klettunum og kæla sig í hitanum sem fór stigvaxandi.

IMG_2460 We found paradise

Um kvöldið var svo borðaður kjúlli sem vakti lukku okkar því þá sluppum við að borða Zebu. Við vorum orðin lúin og Elínborg var farin að sofa kl. 21 sem var líklega það snemmsta í ferðinni.

Næsta dag fórum við aftur inn í þjóðgarðinn og gengum að tveimur uppsprettum. Önnur hét “Svarta vatnið” af því að það er djúpur hylur og sólin skín ekki í hann og þar var vatnið ískalt. Hin uppsprettan heitir “Bláa vatnið” en hún var grynnri og bjartari og vatnið mun hlýrra. Við hjónin vorum ekki í stuði fyrir sund þarna en þeir voru þó fleirri sem fóru útí. Þessi göngutúr var mjög skemmtilegur og toppurinn var svo að við sáum lemúra í restina, bæði ringtailed og Brúna Lemúra. Þessir brúnu voru að skella sér yfir lítinn læk. Við sátum hinumegin og horfðum á þá skoppa yfir lækinn beint fyrir framan okkur og náðum meira að segja vídeó af þeim skoppa yfir. Við vorum svo heppin að vera bara nokkur þarna og manni fannst maður vera í svo mikilli nálægð með þeim þar sem við sátum 2-3 metra frá þeim en þeir eru að sjálfsögðu algerlega villtir þessir lemúrar. Þetta var ekkert smá gaman, þvílíkar dúllur. Hoppuðu með “hendurnar” upp og svo fyndnir á svip. Þetta var æði.

IMG_2497

Um kaffileitið var farið af stað að skoða safn þar sem farið var yfir jarðsögu þjóðgarðsins og síðan átti að horfa á sólsetrið á einhverjum fallegum stað þar sem sólin sest á milli steinanna. Elínborg fór á safnið en Örn varð eftir og horfði á fjórðungsúrslit á HM í rugby á milli Englendinga og Ástrala með tveimur af Bretunum í hópnum. England vann og það gladdi alla í hópnum gríðarlega. Safnið var hins vegar mjög spes. Þetta var risa hús, mjög flott en byggt langt frá þorpinu úti í auðninni. Safnið var á einni hæð og þetta voru eiginlega bara myndir með textum undir. Það var bara fínt að sjá það en ekkert sérstakt. Það var svo keyrt að þessum spes stað til að horfa á sólsetrið. Þarna var steingluggi af náttúrunnar hendi og sólin á að koma í gluggann þegar hún sest. Elínborg nennti nú ekki að troða sér að glugganum því þarna var slatti af túristum, meira en við höfðum verið vör við á öðrum stöðum. Sólsetrið var fallegt eins og reyndar allstaðar.

Við fórum svo með Clive og Julie á The Happy Lemur sem er bar hinumegin við götuna við hótelið. Það var æðislegt að sitja þarna og drekka ískaldan THB í þessu yndislega þorpi. Þarna voru heimamenn að kaupa sér drykki og það var mikið líf og fjör. Þarna voru tveir kettir sem áttu greinilega heima þarna á barnum og þeir snigluðust í kring um okkur og nutu athyglinnar. Það varð rafmagnslaust þarna í smá tíma eins og verður stundum hérna því hér er allt rafmagn keyrt með rafölum en heimamenn voru fljótir að kveikja á kertum fyrir okkur. Það slokknaði á kertinu í golunni og þá hannaði barþjónninn skýli fyrir kertið úr plastflösku sem hann skar botninn úr og setti á kertið. Þetta er svo yndislegt fólk hérna, maður segir það aldrei nógu oft. Þessi stund á The Happy Lemur er ein af okkar bestu stundum í ferðinni.

Við vorum svo aftur komin í rúmið um kl. 21, hörkutól.

Við fórum svo aftur af stað kl. 6:30 morguninn eftir og keyrðum til baka til Tulear með nokkrum myndastoppum. Í einu stoppinu sáum við nokkra sifaka uppi í tré í hádegishvíld. Maður bara fær aldrei nóg af þessum lemúrum. Þegar við komum við Tulear þá var stefnan tekin á bátsferð sem tók okkur til Anakao. Til þess að komast út í bátinn fórum við á Zebu kerrum yfir flæðamálið. Við lentum í kerru þar sem aumingja dýrin voru beitt harðræði af tveim smástrákum sem börðu þau áfram. Gripirnir voru komnir með svöðusár á bakið eftir drengina sem lömdu og lömdu þá af ástæðulausu. Það var augljóst að dýrin höfðu farið þessa leið hundrað sinnum áður og rötuðu alveg og því engin ástæða til að láta svona. Þetta var hræðilegt að vera þarna í kerrunni, okkur langaði helst að taka prikin af strákunum og lemja þá með þeim. Ian var með okkur í kerrunni og hann ræddi við Catherine og hún ætlaði að taka þetta upp við yfirmanninn. Á bakaleiðinni var tekið sérstaklega fram að ef eitthvað dýr yrði slegið yrði ekkert greitt fyrir ferðina. Báturinn sem við fórum í var spíttbátur með tveim risastórum utanborðsmótorum. Ferðin var fín fyrir flesta en Örn lenti í því að sitja í staninum þar sem nef bátsins lamdist í öldurnar og hann fékk töluvert í bakið. Gaurarnir sem stýrðu ákváðu fyrst þeir voru seinir fyrir að gefa allt í botn þannig að báturinn lamdist í öldurnar, mun meira en nauðsynlegt var. Frekar leiðinlegt því þetta var alveg óþarfi og þeir bara að sýna sig.

IMG_2538 Our ride to the boat

Það er hins vegar sagt að fall sé fararheill og það átti heldur betur við um þessa för því nú vorum við komin í paradís. Anakao er æðislegt strandhótel með hvítum sandi, grænbláum sjó og börum undir stráþökum. Við gistum svo í litlum kofum, dreifðum í kring um aðal bygginguna og þeir eru æði. Við erum loks með hjónarúm en við höfum yfirleitt verið með sitthvort rúmið. Mjög kósí. Við komum okkur fyrir og svo var hist og borðað. Við fengum okkur pizzu og bjór sem var afar kærkomið og pizzan reyndist vera alveg til fyrirmyndar. Tíminn í Anakao var algerlega óskipulagður þannig að við gátum gert nákvæmlega þar sem okkur datt í hug og við byrjuðum á að skella okkur í sjóninn sem var bærilega heitur og hressandi. Þegar við komum úr sjónum sáum við Clive og Julie að skoða dúka sem heimamenn voru að reyna að selja þeim og Elínborg keypti einn af þeim. Mjög fallegur og ódýr. Þegar búið var að kaupa dúkinn komu stelpur með slæður og Elínborg vildi kaupa eina en hún vildi selja henni tvær. Stelpan varð mjög pirruð þegar við vildum bara eina slæðu. Örn fékk sér svo nudd á ströndinni en var ein heimastúlkan að bjóða nudd sem var mjög fínt og Elínborg keypti sér hálsmen á meðan. Það var yndislegt að vera úti í sólinni og njóta lífsins og slappa aðeins af eftir stífa dagskrá dagana á undan.

IMG_2563 Hot babe on the beach!

Um kvöldið borðuðum við svo öll saman þar sem við buðum uppá Tópas snafs sem vakti mikla lukku og fólk var forvitið um hvar hægt væri að kaupa Tópasinn. Julie, Naomi og herforinginn voru sérstaklega ánægð með Tópasinn en Naomi vildi meina að þetta myndi laga kvef sem hún var með.

Það er sérstaklega gaman að sitja og spjalla við Clive og Julie og svo Mike og Fionu. Þau eru duglegri en aðrir að sitja eftir matinn og fá sér einn öl eða tvo. Þetta eru ótrúlega dugleg hjón sem eru búin að ferðast út um allan heim og sjá ótrúlega hluti. Þetta eru alger hörkutól og virkilega gaman að hafa kynnst þessu fólki. Vera til dæmis flúði heimalandið ásamt syni sínum. Hún vildi ekki að hann þyrfti að fara í herinn í Tékkóslóvakíu og vildi ekki þessar stöðugu njósnir um borgarana. Hún sagði okkur að hún hefði upplifað þessar njósnir aðeins á Íslandi því hún þurfti alltaf að gefa upp kennitölu og henni var ekki vel við því. Hún skildi eftir móður sína og alla fjölskyldu fyrir betra líf fyrir son sinn. Maður getur ekki annað en dáðst af þessu fólki og maður sér hvað maður hefur það gott í sínu lífi.

IMG_2579 Life sure is good!

Í dag er svo 08.10.2007 og við ákváðum að sofa út og sleppa einni ferð. Það var farið út í eyju hérna úti fyrir að skoða stórar flamengó breiður og snorkla fyrir utan eyjuna. Það var hrikalega gott að sofa aðeins lengur. Við fórum svo í morgunmat um 9:30 en það tók dágóðan tíma að fá hann. Það gengur allt mora mora hérna. Við erum svo bara búin að hafa það kósí í sólbaði. Stefnan er svo að fara og skoða fiskimannaþorp hér rétt hjá. Það þarf því miður að fara yfir strönd þar sem heimanenn kúka í fjöruborðið. Stöndin getur því verið full af kúk sem á eftir að skolast út :)

Eftir morgunmatinn fórum við svo bæði í nudd á ströndinni hjá henni Silvíu. Það var notalegt að fá nudd og finna þreytuna líða úr líkamanum. Við gengum svo yfir í fiskimannaþorpið en þó alveg án þess að stíga á kúk og sáum í raun bara einn. Við komumst að því að þeir fara í háfjöru þannig að allt skolast mjög fljótt út og ströndin er því frekar hrein. Þetta var krúttlegt þorp. Börnin voru að leika sér í sjónum hlaupandi á eftir og undan öldunum. Elínborg keypti dúk á leiðinni heim úr þorpinu og borgaði fyrir 40.000 aa sem er frekar mikið fyrir dúka hérna en hún er ekki góð í að prútta enda eru þetta ekki nema um 1.300 kr.

IMG_2567 Massage on the beach

Það borðuðu svo allir saman kvöldmat en fyrir matinn komu starfsmenn á hótelinu og dönsuðu og sungu fyrir okkur Afríska eða öllu heldur Malagasy söngva. Hótelstýran (kona eigandans) var þvílíkt flott, hún náði að dilla sér á ótrúlegan hátt. Strákarnir voru svo sem ekki síðri, berir að ofan og allt. Örn var svo dregin út á dansgólfið sér til mikillar ánægju. Síðan sátu sumir frameftir þangað til komið var að því að taka rafmagnið af en það var kl. 22. Við hjónin sátum þá aðeins fyrir utan kofan okkar og hlustuðum á öldurnar. Að er ekki annað hægt en að líða vel hérna í þessari Paradís.

IMG_2558 Stiff as a plank ;)


Actions

Information

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s
%d bloggers like this: