Back to Tana

9 10 2007

Nú erum við í Tulear og erum að bíða eftir flugi til Tana. Við erum sem sagt búin að fara í bátinn aftur og í þetta skiptið var betra í sjóinn og ekki farið eins hratt og engir urðu fyrir óþægindum eins og í fyrri ferðinni. Mennirnir á Zebu kerrunum voru betri við dýrin í þetta skiptið þannig að ferðin í heild sinni var öll mun skemmtilegri. Við sitjum hérna á hóteli í Tulear og bíðum þess að fara á flugvöllinn.

Elínborg er auðveld bráð fyrir sölufólk og krakkana. Hún hikar alltaf og þá ná allir að hópast að henni. Á kúkaströndinni lenti hún í því að heill hellingur af börnum umkringdu hana og hrópuðu eitthvað til hennar. Oftast eru þau að biðja um bon bon (nammi á frönsku). En það er ekki sniðugt að gefa þeim því þau fara ekki til tannlæknis og eiga ekki tannbursta. Okkur er sagt að Frakkarnir gefi þeim nammi en þeir virðast hafa marga ósiði hérna. Mamy segir okkur að sumstaðar hafi fólk alveg farið að reiða sig á betl peninga frekar en að vinna venjulega vinnu. Það er verið að reyna að taka fyrir þetta og ferðamenn beðnir að vera ekki að gefa betlurum.

IMG_2606 Me with Mamy, our tour guide

Stundum sér maður samt örvæntingu í augum fólksins hérna. Ein stelpa sem við sáum á leiðinni frá Berenti til Fort Daupin horfði á okkur sem eins konar áfellisaugnarráði eins og hún væri að segja “af hverju eru þið þarna inni í rútunni og hafið það gott en ég föst hérna?”. Þegar rútan fór aftur af stað var eins og við værum að skilja hana eftir. Á þessum sama stað var lítill allsber strákur og það blæddi líltillega úr typpinu hans. Hann var eitthvað svo varnarlaus. En Malagasy börnin eru fallegustu börn sem við höfum augum litið.

Við höfum reynt að læra eins mikið í Malagasy og við ráðum við. Til dæmis getum við pantað drykki, heilsað og þakkað fyrir okkur. Á hótelinu í Ranahiri þá hló ein starfsstúlkan að Erni þegar hann reyndi að tala Malagasy og leiðrétti hann miskunarlaust. Það eru nefninlega mikið af mállýskum hérna þannig að sömu hlutirnir eru ekki sagðir nákvæmlega eins eftir því sem við ferðumst um. Við höfum líka lært að telja upp í tíu, rosa dugleg :)

Það eru búin að vera töluverð veikindi í hópnum. Nánast allar konurnar hafa orðið veikar að einhverju leiti. Mamy varð mjög veikur í ferðinni. Líklega varð hann veikur í rútunni til Berenti þegar við höfðum loftkælingu. Hann missti röddina og var með töluverðan hita. Hann dró samt ekkert af sér því hann var hálf hræddur um að verða rekinn greyið maðurinn. Þetta var leiðinlegt fyrir alla því við vildum auðvita bara að hann tæki sér einn dag í rúmminu til að jafna sig.

Það var afar gott að vera þennan eina og hálfa dag í Anakao og gera fátt annað en að sóla sig, fara í nudd, teiga góðar veigar og borða góðan mat. Þetta var alveg passlegt sólarstrandarfrí.

IMG_2409 Eínborg in a Tuk Tuk

Við höfðum 4 tíma til að drepa í Tulear þar sem lítið er til dundurs. Tulear er fátækasta borg landsins og lítið fyrir túrhesta að gera. Víð fórum túr um bæinn sem tók 10 mínútur. Og svo á ávaxtamarkaðinn. Markaðurinn bar þess merki að lítið er um fyrr nefnda hesta. Mest bara matvara á boðstólunum og lítið um bruðl varning. Þó var smá gata með nokkrum munum og þar keyptum við kameljón og lemur úr Sesal trefjum. Við fengum svo inni á eina hótelinu með sundlaug þar sem við snæddum hádegisverð. Við drepum svo tímann með því að æfa okkur í Malagasy á meðan aðrir fóru í sund. Við tók svo 70 mínútna flug til Tana þar sem við gistum eina nótt á Tana Plaza. Fyrst þegar við komum á Tana Plaza fannst okkur þetta svona ok hótel en núna þegar við vorum búin að kynnast landinu sáum við hversu mikið lúxus hótel þetta í rauninni var, minnti okkur bara á Holtið, þjónustan var alveg frábær og á veitingastaðnum var hún eiginlega bara of frábær. Örn fékk sér geitaostarétt sem var með mikið af rjómaosta-geitaosti, full mikið þó hann væri góður. Elínborg fékk sér grænmetis Canallone eins og fyrsta kvöldið. Þetta var Canallone þar sem búð var að skipta út pastanu fyrir grænmeti. Gumsið var vafið inn í gúrku, gulrót og zuccini og kom svona ljómandi vel út.





The savior

29 09 2007

Í morgun heimsóttum við í þorp sem reist hefur verið af Argentískum/Frönskum presti, Per Pedro, og er í raun partur af keðju af þorpum sem hann hefur reist. Hann var sjálfur að fagna 50 ára víxluafmæli og hélt messu af því tilefni. Per Pedro er búinn að búa í Madagaskar í tugi ára og hefur gert alveg ótrúlega hluti þar og helgað líf sitt aðstoð við fátæka og talið er að hann hafi aðstoðað yfir 250.000 manns og komið til betra lífs. Hann hefur bæði safnað fé til að byggja hús fyrir fókið og einnig komið að byggingu þeirra með eigin hendi. Þetta er líklega einhver merkilegasti maður sem við höfum komist í návígi við um ævina. Messan var alveg ótrúleg lífsreynsla. Það voru ábyggilega á milli 5.000 og 6.000 manns samankomin á samkomunni og stór hluti voru börn. Per Pedro messaði og fólkið söng. Maður bara táraðist við að vera vitni af því hvað þetta fólk gat verið glatt og skemmt sér mikið þó svo að ytri aðstæður væru kannski ekki eins og best verður á kosið. Þetta var alveg stórkostleg upplifun að vera viðstaddur þessa messu þar sem svona margt fólk kom saman og söng að gríðarlegri innlifun og gleði. Í kring um okkur sátu litlar stelpur sem sungu svo skært að þær hefðu líklega farið létt með að brjóta kristalsglös með söngnum. Það var líka saman að sjá að allir höfðu þvegið sér og farið í sparifötin fyrir messuna, allir í litríkustu fötunum sínum og voða prúðbúnir. Þarna sá maður að greinilega komu fatasendingar frá vesturlöndum og fókið raðaði þessu öllu saman í smekklega búninga. Það er alveg augljóst að Per Petro hefur gert frábæra hluti þarna og fólkið elskar hann og dáir enda hefur hann lagt sitt líf algerlega í að aðstoða þetta fólk. Hann var nokkuð vel tengdur í Frakklandi áður en hann kom til Madagaskar. Hann spilaði með franska landsliðinu í fótbolta og þekkti ýmsa ráðamenn í Frakklandi, meðal annars Mitterand fyrrverandi forseta Frakklands. Eftir að hann var vígður sem prestur kom hann í heimsókn til Madagaskar og þar kom hann auga á neyðina, tugir þúsusunda sem hafði lífsviðurværi sitt af því að róta í öskuhaugum, stunda betl, vændi og fleira í þeim dúr.

IMG_2187 At the mass

Eftir messuna var mikið af börnum sem vildi fá teknar myndir af sér og skríktu af gleði þegar þau sáu þær á skjáunum hjá okkur á digital myndavélunum. Einn gutti með bróður sinn á bakinu elti Elínborgu um allt í von um að fá myndir af sér og við reyndum að mynda sem flesta og sýna þeim. Margir úr hópnum höfðu komið með skólabækur, blýanta og fleira í þeim dúr og við afhentum mest af dótinu hér.

IMG_2204 With the kids

Við keyrðum svo upp á hæð þar sem sá yfir nokkur þorp sem Per Pedro hafði skipulagt og tókum myndir. Að lokum skoðuðum við svo aðstæður fólksins sem enn lifði á öskuhaugunum, þar var fólk að róta í ógeðslegu ruslinu með prikum og leita að einhverju ætilegu eða einhverju sem hægt væri að selja. Það virtist ekki huggulegt líf og maður getur eiginlega ekki ýmyndað sér aðstæður fólks sem dregur fram lífið á þennan hátt.

IMG_2211 Going through the garbage

IMG_2205 One of the new villages

Við fórum svo aftur á hótelið og pökkuðum niður því næst var feriðinni heitið til Fort Daupin sem er á suð-austur strönd eyjarinnar. Við borðuðum aftur á franska hótelinu og borðuðum þar fisk sem oft var nefndur í ferðinni og var alltaf kynntur sem “kind of like Tuna but not Tuna” og voru skiptar skoðanir um ágæti hans.

Til að byrja með verður flogið til Fort Daupin sem er á suð-austur horni Madagaskar og gist þar eina nótt en síðan er ferðinni heitið til Berenti sem er verndarsvæði fyrir Lemúra og gríðarleg tilhlökkun hjá okkur hjónunum að koma þangað.





“The first day”

28 09 2007

Daginn eftir var fyrsti frítíminn okkar sem við nýttum til að ná aðeins upp svefninum. Við vorum þó vöknuð um níu leitið. Við fórum aðeins á röltið og skoðuðum Tana. Það var endalaust af fólki að selja eitthvað. Mikið af mörkuðum og mjög mikið af fólki. Það var mjög mikið um börn á götunum, lítil börn með enn minni systkyni sín á bakinu. Þau voru mörg hver betlandi og áttu það til að elta okkur í lengri tíma. Okkur hafði verið ráðlagt að gefa betlurum ekkert því það hvetur aðeins til enn meira betls. Maður reyndi því að ganga bara framhjá betlandi, skítugum en krúttlegum börnum. Við sáum allskyns skrýtna hluti á mörkuðunum eins og nautaþindar, svínshausa, sjónvarpsloftnet, garðklippur, allskyns raftæki, fjöltengi, belti, nærföt og fleira, allt hlið við hlið.

IMG_2146 The kids on the street

Við snæddum svo hádegisverð á frönsku hóteli þar sem við fengum mjög góðan mat og afbragðs bjór með sem er framleiddur í Madagaskar.

Eftir hádegið hittust svo allir aftur og haldið var af stað í rútunni. Við byrjuðum á að fara á blómamarkað og gengum að minnismerki sem er til heiðurs föllnum hermönnum sem börðust með Frökkum í fyrri heimstyrjöldinni. Okkur var hins vegar sagt frá því að Frakkar hefðu neitað að reisa minnismerki fyrir framlag Madagaskar í seinni heimstyrjöldinni því þeir dirfðust að gera uppreisn við lok stríðsins og heimtuðu sjálfstæði á svipuðum tíma og við Íslendingar. Það þoldu Frakkar illa og refsuðu grimmilega. Eins og fyrr eltu okkur skítug en krúttleg börn sem betluðu nánast allan tíman. Þau voru fljót að finna út hverjir voru veikir fyrir og eltu þá einstaklinga sérstaklega (Elínborgu). Við héldum svo aftur af stað og skoðuðum höll drottningar, við gátum þó ekki farið inn því höllin brann fyrir 12 árum (andstæðingar konungsveldisins kveiktu í höllinni 1995) og var enn verið að gera við hana. Við höllina var víst merk kirkja og fallegur útsýnisstaður þar sem við sáum yfir alla borgina og beint ofan í þjóðarleikvanginn þar sem fram fór landsleikur í Rugby á milli heimamanna og Úganda þar sem heimamenn töldu sig sigurstranglegri. Það fór þó svo að Úganda vann með miklum mun enda voru þeir allir stórir drumbar eins og rugby leikarar eiga að vera en heimamenn litlir og grannir og ætluðu að sigra leikinn með snerpunni. Eftirá fannst manni bjartsýni heimamanna bera dám af bjartsýni Íslendinga í fótbolta þar sem við höldum alltaf að við séum komin á strik en þá fer allt til fjandans.

Um kvöldið var svo frjáls tími og við ákváðum að fara fara ein út að borða en flestir í hópnum borðuðu bara á hótelinu. Við byrjuðum að fordrykk á hótelinu en fórum svo í taxa á staðinn. Allir leigubílar sem við höfum séð eru pínulitlir, eld-gamlir franskir Renault, Citruen eða Peugot bílar. Við spurðum á hótelinu hvað við ættum að borga mikið fyrir farið en það er prúttað um verð leigubílanna. Okkur var sagt að borga 3.000 aa en við enduðum á að borga 5.000 aa sem eru um 170 krónur enda er erfitt að prútta hérna því það er verið að prútta um svo lágar upphæðir, það skiptir okkur litlu máli hvort við borgum 170 kr. eða 130 kr. fyrir leigubíl. Staðurinn sem við fórum á hét SakaManga sem var mjög skemmtilegur staður og við fengum mjög góðan mat og vín. Við borðuðum þriggja rétta veislu með Evrópsku klassa víni og greiddum fyrir það tæpar 2.000 kr. Við tókum svo leigubíl til baka og greiddum fyrir það 4.000 aa sem sínir að maður verður betri að prútta eftir því sem meira vín er í kroppnum :) Það er reyndar mjög gaman að taka leigubíl þarna, bílarnir eru algerir skrjóðir og hristast allir og nötra og manni líður eins og maður sé í blikk dós og til er í dæminu að bílstjórarnir drepi á bílunum niður brekkur til að spara bensín.

IMG_2135 Typical taxi

Næstum gleymdist að segja frá dýragarðinum sem við heimsóttum um miðjan daginn. Þar sáum flestar tegundir Lemúra, meðal annars Músalemúr og YaYa, þ.e. ljóta nætur lemúrinn með klærnar. Við vorum svo heppin að fá að sjá Lemúrana utan við búrin en verðirnir kölluðu í hópinn þegar þei voru að gefa þeim og við fengum að taka þátt. Þeir borðuðu aðallega ýmiskonar grænfóður en einnig fengum vi ð að dífa putta í hunang og þá komu þeir og sleiktu á manni puttana. Maður fattaði svo eftirá að verðirnir voru að drígja tekjurnar því þeir fengu að sjálfsögðu þjórfé fyrir að hafa verið svona góðir við okkur þannig að allir græddu, við, lemúrarnir og verðirnir. Við eigum svo eftir að fara á stað þar sem við fáum betra tækifæri til að gefa lemúrum og vera í nánum samskiptum við þá og er tilhlökkunin gríðarleg.





In Tana

27 09 2007

Jæja við erum mætt til Madagaskar og strax búin að upplifa ótrúlega hluti.

Þegar við komum út úr flugvélinni þá vorum við fyrst út á flugbraut og inn í flugstöðina. Okkur tókst þó að fara framhjá básnum þar sem við áttum að kaupa okkur visa inn í landið og við enduðum því á að lenda öftust í röðinni. Pínu klúður hjá okkur en þolinmæðin þrautir vinnur allar og við komumst inn í landið fyrir rest. Þegar við vorum búin að sækja töskurnar og fara í gegnum tollinn þá hittum við Jonah sem var fyrsti fararstjórinn okkar. Hann ráðlagði okkur að skipta peningunum okkar í Ayri Ayri. Við vorum dálítið eins og álfar þegar við vorum að reyna að finna út hvað væri gott að skipta miklu, maður var ekki alveg að gera sér grein fyrir peningamálunum. Fyrir eina krónu gátum við fengið 32 Ayri Ayri eða um 10.000 Ayri Ayri kostuðu 322 kr. Við hittumst svo breska fararstjórann okkar en hún heitir Katherine. Ferðafélagarnir okkar eru allir eldri en við en virðast vera hið almennilegasta fólk.

Við fórum í rútu til Tana. Farangurinn var settur upp á topp og dúkur strengdur yfir og allt bundið niður. Rútan sem við áttum eftir að ferðast með mestan part ferðarinnar var fínasta rúta, tiltölulega nýlegur Hyundai mini-bus sem tók um 20 manns í sæti. Ferðin á hótelið tók um 30 mínútur. Það sem sló okkur hvað mest á leiðinni var allt ruslið. Það er rusl á víð og dreif út um allt. Einnig var brunalykt áberandi í loftinu. Maður sá einnig fullt af börnum á og við göturnar og hrísgrjónaökrum var potað niður hvar sem pláss var. Fátæktin er mjög áberandi. Katherine var búin að vara okkur við að þegar við komum úr rútunni til að fara inn á Hótelið (Tana Plaza) þá myndu hópast að okkur sölumenn og betlarar. Það var akkúrat þannig. Fólk að selja alls kyns hluti, dúka, hljóðfæri, sígarettur, vanillustangir, sólgleraugu og fleira.

IMG_2535 The bus and the drivers

Hótelherbergið var einfalt en mjög snyrtilegt og manni leið vel. Við vorum með herbergi sem var á balcony þannig að við sáum vel yfir aðal götuna.

IMG_2133 On the balcony

Katherine þótti það ótrúlegt að allir skyldu komast í ferðina þar sem allir fengu þennan stutta fyrirvara. Ákveðið var að nýta daginn vel. Við fórum fyrst á hlaðborð á hótelinu sem er víst það glæsilegasta í bænum og sama má í raun segja um hótelið þó svo að við værum ekki að gera okkur grein fyrir því strax í upphafi. Eftir hlaðborðið var farið aðeins út fyrir borgina að skoða gamla konungshöll. Við keyrðum lengi vel og okkur voru sýnd grafhýsi heimamanna en þau voru mjög mismunandi eftir því hvaða ættbálkar reistu þau eins og við áttum eftir að sjá eftir því sem við fórum víðar. Það mátti ekki benda á grafhýsin með vísifingri þar sem það er óvirðing. Annaðhvort verður maður að benda með bognum fingri eða með allri hendinni til þess að sýna tilhlíðilega virðingu.

Þegar farið var af stað byrjaði maður að gera sér mynd af konungshöllinni í huganum, sá fyrir sér Buckingham Palace og fleiri slíka slíka glæsilega staði. Þessi höll var hins vegar ekki alveg eins og glæsihallir Evrópu. Hallarstæðið var hátt uppi á fjalli því að konungur átti að gnæfa yfir öðrum þegnum. Á staðnum voru í raun tvær hallir, ein töluvert eldri og svo önnur töluvert nýrri. Sú eldri var um 30 fermetra timburhús sem var líklega með um 10 metra háum mæni. Inni var eitt eldstæði og litlir drumbar fyrir matargesti að sitja á. Helst vakti athygli að rúm konungs var í um 2 metra hæð og átti að gnæfa yfir drottningu á táknrænan hátt en hún svaf ekki með konungi. Einnig vakti athygli að hægt var að príla upp í mæni og þegar við spyrðum til hvers það væri gert þá var okkur sagt að konungur hefði stundum falið sig þar til að geta heyrt hvað gestir sögðu í viðtölum við ráðgjafa eða drottningu því hann vissi kannski að viðkomandi hegðaði sér öðruvísi fyrir framan konung en aðra. Nýja höllin var svo heldur nútímalegri en þó á engan hátt ríkmannleg og hefði í mestalagi dugað íslenskum millistjórnanda, forstjóri hefði rifið húsið og byggt nýtt á lóðinni.

IMG_2118 The old palace

Um kvöldið borðuðum við svo öll saman og fararstjórinn fór yfir öll helstu mál. Við kynntumst aðeins fólkinu en töluðum mest við Julie og Chris en þær eru enskar systur, önnur líklega tæplega sextug og hin rúmlega. Þær höfðu ferðast víða en Chris þó heldur meira, hún var búin að koma oft til Afríku og gat sagt okkur af kynnum sínum við górillur, ljón og fleiri villidýr. Einnig hafði hún farið víða um Asíu og Suður Ameríku. Hún neitaði hins vegar að fara til Bandaríkjana, sagði að það væri bara fyrir konur með blátt hár en átti þar við eldri konur með lagningarvökva í hárinu en hann á það til að setja aðeins bláma í hárið.