“The first day”

28 09 2007

Daginn eftir var fyrsti frítíminn okkar sem við nýttum til að ná aðeins upp svefninum. Við vorum þó vöknuð um níu leitið. Við fórum aðeins á röltið og skoðuðum Tana. Það var endalaust af fólki að selja eitthvað. Mikið af mörkuðum og mjög mikið af fólki. Það var mjög mikið um börn á götunum, lítil börn með enn minni systkyni sín á bakinu. Þau voru mörg hver betlandi og áttu það til að elta okkur í lengri tíma. Okkur hafði verið ráðlagt að gefa betlurum ekkert því það hvetur aðeins til enn meira betls. Maður reyndi því að ganga bara framhjá betlandi, skítugum en krúttlegum börnum. Við sáum allskyns skrýtna hluti á mörkuðunum eins og nautaþindar, svínshausa, sjónvarpsloftnet, garðklippur, allskyns raftæki, fjöltengi, belti, nærföt og fleira, allt hlið við hlið.

IMG_2146 The kids on the street

Við snæddum svo hádegisverð á frönsku hóteli þar sem við fengum mjög góðan mat og afbragðs bjór með sem er framleiddur í Madagaskar.

Eftir hádegið hittust svo allir aftur og haldið var af stað í rútunni. Við byrjuðum á að fara á blómamarkað og gengum að minnismerki sem er til heiðurs föllnum hermönnum sem börðust með Frökkum í fyrri heimstyrjöldinni. Okkur var hins vegar sagt frá því að Frakkar hefðu neitað að reisa minnismerki fyrir framlag Madagaskar í seinni heimstyrjöldinni því þeir dirfðust að gera uppreisn við lok stríðsins og heimtuðu sjálfstæði á svipuðum tíma og við Íslendingar. Það þoldu Frakkar illa og refsuðu grimmilega. Eins og fyrr eltu okkur skítug en krúttleg börn sem betluðu nánast allan tíman. Þau voru fljót að finna út hverjir voru veikir fyrir og eltu þá einstaklinga sérstaklega (Elínborgu). Við héldum svo aftur af stað og skoðuðum höll drottningar, við gátum þó ekki farið inn því höllin brann fyrir 12 árum (andstæðingar konungsveldisins kveiktu í höllinni 1995) og var enn verið að gera við hana. Við höllina var víst merk kirkja og fallegur útsýnisstaður þar sem við sáum yfir alla borgina og beint ofan í þjóðarleikvanginn þar sem fram fór landsleikur í Rugby á milli heimamanna og Úganda þar sem heimamenn töldu sig sigurstranglegri. Það fór þó svo að Úganda vann með miklum mun enda voru þeir allir stórir drumbar eins og rugby leikarar eiga að vera en heimamenn litlir og grannir og ætluðu að sigra leikinn með snerpunni. Eftirá fannst manni bjartsýni heimamanna bera dám af bjartsýni Íslendinga í fótbolta þar sem við höldum alltaf að við séum komin á strik en þá fer allt til fjandans.

Um kvöldið var svo frjáls tími og við ákváðum að fara fara ein út að borða en flestir í hópnum borðuðu bara á hótelinu. Við byrjuðum að fordrykk á hótelinu en fórum svo í taxa á staðinn. Allir leigubílar sem við höfum séð eru pínulitlir, eld-gamlir franskir Renault, Citruen eða Peugot bílar. Við spurðum á hótelinu hvað við ættum að borga mikið fyrir farið en það er prúttað um verð leigubílanna. Okkur var sagt að borga 3.000 aa en við enduðum á að borga 5.000 aa sem eru um 170 krónur enda er erfitt að prútta hérna því það er verið að prútta um svo lágar upphæðir, það skiptir okkur litlu máli hvort við borgum 170 kr. eða 130 kr. fyrir leigubíl. Staðurinn sem við fórum á hét SakaManga sem var mjög skemmtilegur staður og við fengum mjög góðan mat og vín. Við borðuðum þriggja rétta veislu með Evrópsku klassa víni og greiddum fyrir það tæpar 2.000 kr. Við tókum svo leigubíl til baka og greiddum fyrir það 4.000 aa sem sínir að maður verður betri að prútta eftir því sem meira vín er í kroppnum :) Það er reyndar mjög gaman að taka leigubíl þarna, bílarnir eru algerir skrjóðir og hristast allir og nötra og manni líður eins og maður sé í blikk dós og til er í dæminu að bílstjórarnir drepi á bílunum niður brekkur til að spara bensín.

IMG_2135 Typical taxi

Næstum gleymdist að segja frá dýragarðinum sem við heimsóttum um miðjan daginn. Þar sáum flestar tegundir Lemúra, meðal annars Músalemúr og YaYa, þ.e. ljóta nætur lemúrinn með klærnar. Við vorum svo heppin að fá að sjá Lemúrana utan við búrin en verðirnir kölluðu í hópinn þegar þei voru að gefa þeim og við fengum að taka þátt. Þeir borðuðu aðallega ýmiskonar grænfóður en einnig fengum vi ð að dífa putta í hunang og þá komu þeir og sleiktu á manni puttana. Maður fattaði svo eftirá að verðirnir voru að drígja tekjurnar því þeir fengu að sjálfsögðu þjórfé fyrir að hafa verið svona góðir við okkur þannig að allir græddu, við, lemúrarnir og verðirnir. Við eigum svo eftir að fara á stað þar sem við fáum betra tækifæri til að gefa lemúrum og vera í nánum samskiptum við þá og er tilhlökkunin gríðarleg.


Actions

Information

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s




%d bloggers like this: