In Tana

27 09 2007

Jæja við erum mætt til Madagaskar og strax búin að upplifa ótrúlega hluti.

Þegar við komum út úr flugvélinni þá vorum við fyrst út á flugbraut og inn í flugstöðina. Okkur tókst þó að fara framhjá básnum þar sem við áttum að kaupa okkur visa inn í landið og við enduðum því á að lenda öftust í röðinni. Pínu klúður hjá okkur en þolinmæðin þrautir vinnur allar og við komumst inn í landið fyrir rest. Þegar við vorum búin að sækja töskurnar og fara í gegnum tollinn þá hittum við Jonah sem var fyrsti fararstjórinn okkar. Hann ráðlagði okkur að skipta peningunum okkar í Ayri Ayri. Við vorum dálítið eins og álfar þegar við vorum að reyna að finna út hvað væri gott að skipta miklu, maður var ekki alveg að gera sér grein fyrir peningamálunum. Fyrir eina krónu gátum við fengið 32 Ayri Ayri eða um 10.000 Ayri Ayri kostuðu 322 kr. Við hittumst svo breska fararstjórann okkar en hún heitir Katherine. Ferðafélagarnir okkar eru allir eldri en við en virðast vera hið almennilegasta fólk.

Við fórum í rútu til Tana. Farangurinn var settur upp á topp og dúkur strengdur yfir og allt bundið niður. Rútan sem við áttum eftir að ferðast með mestan part ferðarinnar var fínasta rúta, tiltölulega nýlegur Hyundai mini-bus sem tók um 20 manns í sæti. Ferðin á hótelið tók um 30 mínútur. Það sem sló okkur hvað mest á leiðinni var allt ruslið. Það er rusl á víð og dreif út um allt. Einnig var brunalykt áberandi í loftinu. Maður sá einnig fullt af börnum á og við göturnar og hrísgrjónaökrum var potað niður hvar sem pláss var. Fátæktin er mjög áberandi. Katherine var búin að vara okkur við að þegar við komum úr rútunni til að fara inn á Hótelið (Tana Plaza) þá myndu hópast að okkur sölumenn og betlarar. Það var akkúrat þannig. Fólk að selja alls kyns hluti, dúka, hljóðfæri, sígarettur, vanillustangir, sólgleraugu og fleira.

IMG_2535 The bus and the drivers

Hótelherbergið var einfalt en mjög snyrtilegt og manni leið vel. Við vorum með herbergi sem var á balcony þannig að við sáum vel yfir aðal götuna.

IMG_2133 On the balcony

Katherine þótti það ótrúlegt að allir skyldu komast í ferðina þar sem allir fengu þennan stutta fyrirvara. Ákveðið var að nýta daginn vel. Við fórum fyrst á hlaðborð á hótelinu sem er víst það glæsilegasta í bænum og sama má í raun segja um hótelið þó svo að við værum ekki að gera okkur grein fyrir því strax í upphafi. Eftir hlaðborðið var farið aðeins út fyrir borgina að skoða gamla konungshöll. Við keyrðum lengi vel og okkur voru sýnd grafhýsi heimamanna en þau voru mjög mismunandi eftir því hvaða ættbálkar reistu þau eins og við áttum eftir að sjá eftir því sem við fórum víðar. Það mátti ekki benda á grafhýsin með vísifingri þar sem það er óvirðing. Annaðhvort verður maður að benda með bognum fingri eða með allri hendinni til þess að sýna tilhlíðilega virðingu.

Þegar farið var af stað byrjaði maður að gera sér mynd af konungshöllinni í huganum, sá fyrir sér Buckingham Palace og fleiri slíka slíka glæsilega staði. Þessi höll var hins vegar ekki alveg eins og glæsihallir Evrópu. Hallarstæðið var hátt uppi á fjalli því að konungur átti að gnæfa yfir öðrum þegnum. Á staðnum voru í raun tvær hallir, ein töluvert eldri og svo önnur töluvert nýrri. Sú eldri var um 30 fermetra timburhús sem var líklega með um 10 metra háum mæni. Inni var eitt eldstæði og litlir drumbar fyrir matargesti að sitja á. Helst vakti athygli að rúm konungs var í um 2 metra hæð og átti að gnæfa yfir drottningu á táknrænan hátt en hún svaf ekki með konungi. Einnig vakti athygli að hægt var að príla upp í mæni og þegar við spyrðum til hvers það væri gert þá var okkur sagt að konungur hefði stundum falið sig þar til að geta heyrt hvað gestir sögðu í viðtölum við ráðgjafa eða drottningu því hann vissi kannski að viðkomandi hegðaði sér öðruvísi fyrir framan konung en aðra. Nýja höllin var svo heldur nútímalegri en þó á engan hátt ríkmannleg og hefði í mestalagi dugað íslenskum millistjórnanda, forstjóri hefði rifið húsið og byggt nýtt á lóðinni.

IMG_2118 The old palace

Um kvöldið borðuðum við svo öll saman og fararstjórinn fór yfir öll helstu mál. Við kynntumst aðeins fólkinu en töluðum mest við Julie og Chris en þær eru enskar systur, önnur líklega tæplega sextug og hin rúmlega. Þær höfðu ferðast víða en Chris þó heldur meira, hún var búin að koma oft til Afríku og gat sagt okkur af kynnum sínum við górillur, ljón og fleiri villidýr. Einnig hafði hún farið víða um Asíu og Suður Ameríku. Hún neitaði hins vegar að fara til Bandaríkjana, sagði að það væri bara fyrir konur með blátt hár en átti þar við eldri konur með lagningarvökva í hárinu en hann á það til að setja aðeins bláma í hárið.


Actions

Information

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s




%d bloggers like this: