Perinet

10 10 2007

Enn og aftur var svo haldið af stað snemma næsta morgun og í þetta skipti með rútu norð-austur af Tana, heldur niður af hásléttunni og í áttina að regnskóginum á austurströndinni en þar var ráðlagt að eyða síðustu þremur nóttunum. Vegurinn í átt að austurströndinni var mjög góður en nokkuð bugðóttur niður af hásléttunni. Stærsta höfn Madagaskar er austur af Tana og því mikil umferð flutningabíla þó svo að lest liggi einnig niður að höfninni. Við keyrðum í gegn um heimabæ forsetans og þar sagði Mamy okkur að þaðan kæmi snjallasta en einnig slóttugusta fólk landsins, einskonar Húsavík þessa lands ;) við stoppuðum loks í þjóðvegasjoppu af betri gerðinni og snæddum úti á verönd. Á veröndinni stóð einhverskonar pálmatré og Catherine sagði okkur frá því að áður hefði bambus-lemúr oft komið niður pálmann á meðan matargestir voru að gæða sér á máltíðinni. Pálminn hafði hins vegar skemmst í fellibyl og snáði hafði ekki látið sjá sig síðan. Síðasti stoppistaðurinn á leiðinni var næsta þorp við áfangastaðinn. Þetta var lítið, fátækt þorp við járnbrautarlínuna til sjávar. Þar voru kannski um hundrað kofar, ein kaþólsk kirkja og svo lestarstöð og hótel. Það sem helst gerir þorðið frægt er að Breskur rithöfundur gisti hér á leið sinni um landið, leið sem hann lýsir í bók sinni “Yah Yah and I”. Bók sem áhugamenn um Madagaskar verða víst að lesa. Börnin voru eins æðisleg og annarsstaðar og sértaklega tvö um þriggja til fjögurra ára, uppábúin, hún í fölbleikum kjól og hann í skyrtu og í vesti og voru þau með sjal yfir sér og skríktu “Vasa! Vasa!” og bentu á okkur og brostu út að eyrum. Það voru því ekki bara við sem voru að skoða þeirra líf heldur voru þau ekki síður að skoða okkur. Það var gaman að sjá að “búðirnar” þarna seldu ýmiskonar harðfisk allt frá agnar litlum fiskum og upp í eitthvað á stærð við þorsk. Þegar við ætluðum aftur upp í rútuna heyrðum við fallegan söng þar skammt frá og gengum í áttina. Þar fór fram smurning á líki látins þorpsbúa sem átti svo að dysja hæst uppi á fjalli svo hann verði sem bestur tengiliur við skaparann. Landsmenn hafa afar misjafna útfararsiði og hefur hver ættflokkur sinn háttinn á.

IMG_2598 Vasa Vasa!

Síðasti gististaður okkar heitir Vakona Lodge og er dásamlegur staður inni í regnskóginum á milli tveggja þjóðgarða, Perinet og Mandadia. Staðurinn samanstendur af móttöku og glæsilegum veitingastað og í kring eru svo um 25 kofar af betra taginu. Í boði er svo ýmis afþreying eins og hestaferðir, squash, sundlaug og margt fleirra. Við byrjuðum hins vegar á því að koma okkur fyrir og hentum okkur svo á barinn. Á þessum stað ein og sumum öðrum þurftum við að panta kvöldmat í hádeginu og hádegismatinn á morgnana sem var mjög skrýtið því yfirleitt var maður að panta þegar maður var pakk-saddur. Það kom reyndar ekki mjög að sök á þessum stað því allur matur var mjög góður og passlega skammtaður.

IMG_2641 Vakona Lodge

Snemma næsta morgun var haldið inn í Perinet þjóðgarðinn og inn í regnskóginn. Áður fyrr voru þjóðgarðarnir tveir einn samfelldur skógur en vegna ágangs mannsins hafa þeir slitnað í sundur. Mikið hefur þó verið plantað undanfarin ár en aðallega Eukalyptus sem vex hratt og hægt að nýta fljótt en gallinn við hann er að lemúrarnir borða hann ekki og því virka Eukalyptus beltin í raun eins og girðing fyrir þá. Því eru heimamenn í auknum mæli að planta trjám og plöntum með þetta í huga.

Allavega þá héldum við inn í Perinet skóginn sem inniheldur innlend tré í einhverju blandi við önnur. Með okkur voru leiðsögumennirnir Pascal og Bernadette. Lögð var fram ósk um að þau sýndu okkur Boa sem er stærsta slangan í Madagaskar, kyrkislanga sem verður um þriggja metra löng og um ökkla þykk. Við höfðum ekki gengið lengi þegar leiðsögumennirnir stukku út fyrir slóðann og kölluðu svo á okkur því þau höfðu fundið slöngu. Hún reyndist vera unglingur, um 1,5 metri á lengd og kannski eins og grannur úlnliður á þykkt. Hún var að halla sér þegar okkur bar að garði sem kom ekki á óvart því þær liggja lengi á meltunni ef þær ná góðri bráð (rottu, fugl eða feitum froski). Við sáum líka nokkra froska hoppandi í grasinu. Þeir voru ekki ólíkir þeim sem við höfum séð í Flórída nema hvað þeir voru brúnir á litinn. Þegar við fórum aftur af sta fórum við að heyra köllin frá Indri lemúrum í fjarska. Indri er stærstur núlifandi lemúra og er um meter á hæð og um tíu kíló. Köllin frá þeim á morgnana þegar þeir eru að láta vita af sér eru stórfengleg og um leið sorgleg. Það er einhver sorg og dulúð í köllunum eins og þeir séu að syngja með söknuði um horfna tíma, ekki ólíkt köllum steypireiða neðansjáfar. Brátt rákumst við á hóp Brúnna Lemúra sem eru alltaf jafn forvitnir um ferðir okkar mannanna og haga sér eins og þeir séu á “mannasafni” að skoða okkur, alveg ótrúlegt hvað þeir eru óhræddir og forvitnir. Við sáum líka mikið af allskonar fluglum en það er erfiðara fyrir okkur að tengja við þá því þeir eru svo ólíkir okkar fuglum og við heyrum nöfnin líka á ensku. Fyrir næstu ferð ættum við að fara yfir nöfn íslensku fuglanna á ensku til þess að geta tengt við réttar fjöldskyldur, þröstur við þröst og svo framvegis.

IMG_2637 Big big Boa

Fljótlega sáum við diademe sifaka lemúr og þegar betur var að gáð þá var hann með hálsól með loftneti. Pascal sagði okkur frá því að hann væri einn fjögurra sifaka sem höfðu verið færðir úr Mandadia. Lemúrar eigna sér svæði sem þeir verja fyrir öðrum en fjölskyldu sinni og voru öll svæði í Mantadia orðin full og þá hægir verulega á fjölgun þeirra. Einhverra hluta vegna voru engir diadema sifakar í Perinet og þeir fara ekki yfir eukalyptus beltið og því voru þessir fjórir færðir og fylgst með þeim til að byrja með. Mismunandi tegundir geta nefninlega deilt með sér svæði að mestu leiti því þeir éta mismunandi lauf af trjánum. Til hliðar við þessa tilraun er svo verið að tengja skógana saman með upprunalegum gróðri en sú uppgræðsla tekur auðvita lengri tíma. Í gegn um skóginn voru að mestu stígar og troðningar þannig að þægilegt var á fótinn og það kom manni á óvart að skógurinn var ekki mjög þéttur eða rakur enda var sól og blíða og nokkuð heitt. Þetta var því ekki eins og í frumskógarmyndum frá austur Asíu eða Suður-Ameríku.

Loks leiddi Bernadette okkur að Indri en hún var á hlaupum í kring um okkur að finna athugaverð dýr og plöntur á meðan Pascal sá að mestu um útskýringarnar og slíkt. Indri Indri var eins fallegur og allir hinir, aðeins stærri og leit kannski út eins og fjögurra ára barn í bangsabúningi á leið á grímuball. Sá sem við sáum fyrst var að chilla uppi í tré en var þó vakandi. Hann fylgdist með okkur með hægð en virtist ekkert of áhugasamur. Indri Lemúrar fara ekki niður úr trjánum nema til að ná sér í steinefni úr jarðveginum. Vatn innbyrða þeir í gegn um ávexti og lauf.

Við rákumst svo á annan sifaka og á meðan fólk var að mynda hann kom kellan og fóru þau að kela og Pascal taldi jafnvel að þau væru að reyna að eðla sig en það var ekki gott að sjá það því þau skiptu ört um stellingar. Hvað sem gerðirst þá var allavega stórkostlegt að fylgjast með þessum æðislegu dýrum.

Í gegn um skóginn runnu lækir sem áttu uppruna sinn í lindum ofar í fjöllunum og í þeim syntu fiskar stórir og smáir og köngulær á stærð við litla gemsa strengdu vefi sína yfir bakkan. Einnig sáum við stórar trjálýs sem hringuðu sig inn í skel sína sem var fallega dimm-græn og glansandi. Svona upprúlluð líktist hún helst fallegri glerkúlu. Í lok göngunnar sáum við svo fullorðna Boa og var hún bæði lengri og þykkari en sú fyrri þó erfitt væri að glöggva sig á nákvæmri lengd hennar þar sem hún hringaði sig upp í sólinni.

Eftir hádegið ætlaði svo hópurinn að heimsækja eyju þar sem voru lemúrar sem áður höfðu verið gæludýr en búið var að frelsa eftir að það var bannað að halda lemúra sem gæludýr. Á eyjunni var mest eukalyptus þannig að lemúrunum er einnig gefnir bananar og gulrætur og eru því afar gæfir.

IMG_2650 “Do you have anything to eat?”

Við vorum svo spennt að við fórum klukkutíma á undan með Clive og Julie sem eru næst ynstu hjónin í hópnum og þau sem við höfum náð að tengja hvað best við, barnlaus eins og við og í sinni fyrstu hópferð. Við röltum að eyjunni og fórum svo með kanó út í eyju með leiðsögumanninum Lucian. Hann fór og sótti nokkra banana og gulrót og svo röltum við inn í skóginn. Lucian gaf frá sér sérkennileg hljóð og það leið ekki á löngu þar til við fórum að heyra skrjáf í trjánum og svo birtust hver á fætur öðrum þrír svart-hvítir rafta lemúrar. Þeir líta út eins og gamlir kallar, svolítið eins og gamli bavíaninn í Lion King nema svartir og hvítir. Þeir létu sig hanga öfugir í trjánum rétt fyrir ofan okkur og þegar Lucian lét okkur hafa banana bita þá var togað í öxlina á manni til að snúa manni rétt og næst var höndin toguð að þeim og loks fengu þeir sér bita. Þeir voru með kalda en mjög mjúka putta og ef þeir þurftu að toga fast notuðu þeir aðeins neglurnar sem lágu ofan á puttunum eins og á okkur mönnunum. Við gáfum þeim nokkra bita og héldum svo áfram en þeir borða víst einhver kíló af bönunum og gulrótum á dag. Næstir komu til okkar Brúnir Lemúrar af tveimur tegundum í sitthvorri halarófunni. Þeir hoppuðu trjáa á milli og létu ekki þar við sitja heldur beint upp á axlirnar, hendurnar og hausa og notuðu okkur bara eins og tré á meðan þeir reyndu að ná í sem flesta banana. Meira að segja hoppaði ein mamman með unga á bakinu á axlirnar á Elínborgu og var þar hin spakasta. Á meðan ungarnir eru litlir þá ferðast mamman með þá að framan en eftir 4 vikur færa þeir sig á bakið og eru þar næstu tvo mánuði á meðan þeir eru smám saman að prufa sig áfram sjálfir í trjánum. Við héldum svo áfram með hersinguna alla á eftir og komum að síðustu tegundinni á eyjunni en það var diadema sifaka sem innfæddir kalla afa. Þetta var aðeins eitt karldýr þannig að við vorkenndum honum svolítið en hann var eina dýrið sem kom sjálfur á eyjuna eftir að hann hafði misst alla fjölskylduna sína í fellibyl. Hann var rólegastur af öllum lemúrunum og virtist yfirvegaðastur þeirra allra en fullfallegur. Hann var lítið að eltast við bananana heldur lét okkur koma til sín. Lucian bauð honum reyndar einusinni banana af löngu færi og þá dansaði hann eftir stígnum eins og sifaka er von og vísa en þeir eru orðnir svo aðlagaðir lífinu í trjánum að á jörðinni hoppa þeir bara til hliðar og eru sporin eins og þeir séu að dansa.

IMG_2658 Nice hat!

Það eru einmitt tvær ætthvíslir lemúra, önnur gengur á fjórum fótum á meðan hin hoppar svona til hliðar.

Við vorum nú komin aftur á upphafspunkt og héldum að heimsóknin væri búin en svo var alls ekki. Lucian setti okkur Clive í tveggja manna kanó en fór sjálfur með stelpurnar og sigldi áfram. Kom þá í ljós að þetta voru þrjár eyjar og á eyju númer tvö voru Brúnir Lemúrar sem eru full aggresívir þannig að við stoppuðum ekkert þar. Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir kæmu í röð á móti okkur. Á seinni tveimur eyjunum er meira af gróðri sem þeir geta borðað en þess utan fá þeir að borða kvölds og morgna banana og gulrætur. Eins og áður sagði þá fórum við ekkert í land þarna því þessir eiga það til að bíta fólk.

IMG_2674 Grandfather Lemur

Á næstu eyju fórum við hins vegar að landi og til okkar skoppuðu Ringtail Lemúrar en þeir eru sömu tegundar og kóngurinn Julian í Disney myndinni Madagaskar. Þarna var ein mamma með unga og svo þrír eða fjórir aðrir. Það var augljóst að þarna var kvennaveldi því mamman tuktaði hina illilega til ef þeir tóku bananabita sem hana langaði í. Einn var svo djarfur að hoppa um borð í banana leit en var fljótur í land ef hann fann einhverja hreyfingu á bátunum.

IMG_2703 “Where are the bananas?”

Þegar bananarnir voru uppurðnir dóluðum við í rólegheitunum til baka. Á baka leiðinni heyrðum við að það kom styggð að lemúrunum og þeir öskruðu allir og létu illa. Lucian sagði okkur að líklega hefði stór fugl flogið yfir en ránfuglar eiga það víst til að hirða upp ungana ef færi gefst.

Við vorum dauðfegin að fara á undan hópnum og fá alla athyglina frá lemúrunum og einnig auka bátsferð. Næst röltum við að fyrrverandi krókódílabúgarði en hann var aðal viðurværi Frakkanna sem eiga svæðið áður en þeir fóru í ferðamanna bransann. Það voru ekki allir sem vildu skoða þetta af prinsipp ástæðum en við vorum spennt. Það eru um 40 dýr eftir sem breiddu úr sér á stóru svæði þannig að það fór ekkert alltof illa um þá. Þeim er svo gefið 3-7 kíló af nautakjöti einusinni í viku en liggja á meltunni þess á milli. Örn náði þó að vekja nokkra til lífsins með ví að sveifla hattinum hattinum sínum inn fyrir girðinguna og þá tóku þeir af stað á fullri ferð þar til hattinum var kippt til baka. Líklega héldu þeir að þetta væri kjötstykki sem væri verið að bjóða þeim.

IMG_2714 “Umm steaks walking by”

Þarna var líka Fusa í búri og tveir kettlingar þeirra í öðru búri. Fusa er fallegur köttur heldur minni en Labrador en með sléttan, brúnar feld eins og otur og mjög langt skott. Fusa er eina rándýrið sem lemúrar þurfa að óttast og eru því ekki vinsælir í Madagaskar. Okkur fannst þetta ó afar falleg dýr og tíguleg. Það er merkilegt hvernig skoðun okkar á dýrum fer mikið eftir því hvað og hvernig þau borða. Það er ekki mikið eftir af Fusa og afar erfitt að sjá þau úti í náttúrunni því þau eru hrædd við menn eins og skiljanlegt er. Þarna voru svon nokkur önnur Madagaskar dýr eins og skjaldbökur og Boa auk þess að þarna voru hænur og gæsir eins og allstaðar.

Eftir þetta voru það Béin þrjú: Bað, bjór og borða en matur og vín vour þarna til algerrar fyrirmyndar eins og reyndar allt annað.

Já þetta er sannarlega lúxuslíf í regnskóginum. Maturinn rosalega góður en hér er flest eldað á franska vísu en þó er boðið upp á fína Madagaskar rétti þegar maður er í stuði fyrir að prófa þá.

Við fórum í kvöldgöngu með Pascal og Bernadette. Við máttum ekki fara inn í þjóðgarðana að kvöldi til vegna þess að þeir eru lokaðir af hræðslu við veiðiþjófa. Við þurftum því að ganga á götunni og lýsa inn í skóginn. Allavega þá mættum við galvösk með vasaljós. Katherine, Fiona og Mike fóru ekki. Það var smá vísbending um að þetta væri ekki spes ganga þar sem fararstjórinn sleppti því að fara. Við sáum allavega ekki mikið. Sáum glitta í augu á einum músar lemúr og sáum tvö kameljón sem við höfum ekki séð áður. En það var samt gaman að ganga í myrkrinu og hlusta á frumskóginn. Pascal og Bernadette reyndu alveg eins og þau gátu að finna eitthvað fyrir okkur að sjá en það var bara ekkert.

IMG_2615 35 years old ant colony

Við vorum orðin ansi svöng þegar við komum til baka og bjórþyrst. Ótrúlegt magn af bjór sem við innbyrgðum í þessari ferð ;) Katherine var farin að finna vel á sér þegar við komum.

Næsta morgun var haldið snemma af stað og keyrt yfir í Mantadia garðinn. Pascal og Bernadette komu með okkur eins og áður. Þessi skógur var þéttari og var nánast ósnertur af mannavöldum. Það var meiri ganga þennan daginn. Meiri ganga upp á við og í gegnum ótroðnar slóðir. Við vorum ekki búin að ganga lengi þegar við sáum red breasted lemúr. Það er alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að fylgjast með lemúrum. Maður þurfti reyndar sjónauka til að sjá þessa bærilega. Það var einn lítill trítill með mömmu sinni en hann var greinilega að reyna sín fyrstu skref sjálfur. Hann var bara svo klaufalegur að við vorum öll skíthrædd um að hann myndi detta.

Við heyrðum einnig í Indri og Örn tók upp hljóðið. Þetta var alveg magnað. Það er ótrúleg tilhugsun að vera í regnskógi í Afríku að hlusta á köll Indri Lemúra sem eru alveg yndisleg hljóð.

Pascal og Bernadette leiddu okkur um skóginn og við sáum fleirri lemúra, t.d. Sifaka sem sat hátt hátt upp í tré. Einnig sáum við eftir að hafa ruðst í gegn um skóginn Sifaka Lemúra sem voru rétt hjá okkur. Við sáum svo risamargfætlu og frosk sem var í holu inni í tré. Það var búið að vara okkur við að við gætum fengið blóðsugur á okkur því vorum við öll með sokkana yfir buxurnar, mjög smart. Örn sagðist hafa fundið fyrir einni á kinninni á sér en náði að slá hana af áður en hún festi sig. Það getur hins vegar verið smá vesen að ná þeim af ef þær ná að festa sig á mann. Það borgar sig ekki að toga í þær því þá blæðir mikið heldur á að hella salti eða setja moskító vörn á þær til að þær sleppi takinu. Svo er líka hægt að leyfa þeim bara að klára sitt í rólegheitum.

IMG_2258 Dancing Sifaka

Þetta var virkilega skemmtileg ganga. Það var þrælgaman að ryðjast í gegn um skóginn og komast þannig að lemúrunum. Það var gaman að hafa svolítið fyrir hlutunum.

Við áttum svo frían tíma eftir gönguna og hádegismatinn. Við ákváðum að fara aftur á lemúra eyjuna. Þegar við komum á fyrstu eyjuna beið einn Raftalemúr eftir okkur alveg við matarkassann þannig að þeir vita alveg um hvað þetta snýst. Við fórum svo bara tvö á kanó og hittum þar Veru sem hafði líka skellt sér aftur. Við höfðum með okkur banana. Það var gaman að róa svona bara ein og vera bara úti í náttúrunni og finna friðinn. Lemúrarnir komu svo hlaupandi að okkur þegar við komum á Ringtail eyjuna. Við gáfum þeim banana og bananahýðin líka. Sá sami og kom í bátinn fyrri daginn mætti aftur út í bát. Hann kom alveg upp að Elínborgu og starði í augun á henni eða kannski var hann bara að spegla sig í sólgleraugunum. Allavega vann hann störukeppnina því Elínborg varð hrædd og bakkaði og þá fór hann. Hann minnti svolítið á Viggó þegar hann er alveg að fara að bíta.

IMG_2697 “Bring out those bananas!”

Eftir siglinguna gengum við framhjá krókódílabýlinu. Þar hittum við fyrir nokkra starfsmenn sem heilsuðu okkur og reyndu að kenna okkur ný orð í Malagasy. Við gengum svo í átt að hótelinu eftir stígum í skóginum. Örn Jones vildi prófa eitthverja leið sem Elínborgu leist ekkert á því hún var bara í stuttbuxum og sandölum. Við tókum þó hliðarstíginn og Elínborg fékk smá skeinu á löppina og varð hrædd um að rata ekki aftur á hótelið og verða föst í skóginum í myrkrinu. En við rötuðum nú heim á endanum

Við drifum okkur svo í sturtu og svo á barinn. Fengum okkur THB og spjölluðum við Chris og Jane. Það var mjög skrítið að þetta væri síðasta kvöldið. Við hópurinn vorum búin að safna saman pening í þjórfé fyrir Catherine og Mamy. Þetta var notalegt kvöld. Catherine tók mynd af hópnum af svölunum yfir veitingastaðnum. Á myndinni var eins og Ian hefði skott og var úrskurðaður White Bearded Lemúr, frekar fyndið. Mamy var með okkur þar sem við buðum honum í mat og hafði hann pantað sér Zebu í forrétt og aðalrétt :) Clive hélt ræðu og gaf Catherine 1.300 aa með flísatöng því þetta voru vel notaðir seðlar. Þar var hann að gera grín af því að suma seðlana langar mann ekkert að snert þeir eru svo hrikalega skítugir. Síðan afhenti hann Mamy sitt þjórfé og Mamy hélt ræðu. Hann var mjög hjartnæmur og sagði að þetta hefði verið besti hópurinn sem hann hefði farið með. Catherine lofaði að láta okkur vita ef hann segði þetta við alla hópana :) Það var allavega gaman að sjá Mamy svona glaðann og smá hífaðann. Það var mjög gaman þetta kvöld og allir mjög kátir.


Actions

Information

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s
%d bloggers like this: