Boat trip and a school visit

3 10 2007

Þennan dag var Elínborg heima en hún var ekki í fullu fjöri en ég fór í bátsferð. Við fórum af stað um hálf níu og keyrðum að lítilli höfn þar sem biðu tveir flatbotna bátar með utanborðsmótor. Þegar allir voru komnir í vesti var brunað af stað yfir lítið vatn en svo tók við misþröng á með fenjagróðri á bökkunum. Við skimuðum eftir krókódílum en sáum enga. Við sáum hins vegar mikið af fuglum. Það var töluverður vindur þannig að það puðraði töluvert yfir okkur og maður varð töluvert blautur. Ég nennti ekki að taka með regnjakka sem okkur var bent á að taka með en það kom ekki að sök því að það var heiðskýrt og sólin og vindurinn þurkaði okkur fljótt.

IMG_2382 On the boat

Við fórum framhjá einu fiskimannaþorpi þar sem börnin voru eins sæt og allstaðar annarsstaðar. Eitthvað hefur dregið saman fiskeríið hjá köllunum undanfarið. Það er Suður-Afrískt námafyrirtæki að byggja stíflu og þurfa að sprengja mikið og það fór illa í fiskinn sem dó allur. Þeir fá víst bætur kallarnir. Þetta fyrirtæki er að grafa eftir títaníum og það þarf mikið vatn til að skola bergið eða sandinn. Þessar framkvæmdir hafa verið mikil lyftistöng fyrir Fort Dauphin en það eru alltaf einhverjar aukaverkanir sem fylgja svona framkvæmdum eins og við þekkjum heima af Íslandi.

IMG_2384 Future fishermen

Jæja áfram með ferðina. Við sigldum áfram í um 50 mínútur en fórum þá um borð í fína nýja Pajero jeppa sem tóku okkur framhjá stíflunni og inn í annað þorpið sem til stóð að heimsækja. Þar mættu okkur skítug börn sem báðu um “bon bon”. Okkur hafði verið sagt að börnin þarna væru illa haldin en þau virtust í þokkalegum holdum en þó sást eitt og eitt með loftmaga. Konur sáust víða að elda við eld inni í skraufaþurrum kofunum. Ég bara vona að þær hafi haft eldvarnarteppi :)

Við trítluðum í gegnum þorpið og upp á litla hæð þar sem skólinn var. Þetta voru tvö þokkaleg steinhús skipt í tvennt þannig að það voru fjórar skólastofur allt í allt. Við byrjuðum á að kíkja inn til eldribekkinga. Þar sátu börn tíu til þrettán ára og var þetta útskriftarbekkur úr barnaskóla. Ef þau halda áfram námi fara þau til Fort Dauphin. Krakkarnir voru snyrtilegir og þægir enda skólastjórinn að kenna þeim. Við færðum bækur, penna og liti og bentum á kort og sögðum hvaðan við kæmum. Krakkarnir læra allt á frönsku sem allir virðast kunna. Þegar við komum voru þau að læra hornafræði og glósurnar litu vel út og skriftin falleg. Næst litum við inn til minnstu barnanna. Þau virtust vera í meiri leikskóla en hin en kannski var bara annig tími þegar við komum. Þessir krakkar voru líklega fimm til sjö ára og sungu tvö falleg lög fyrir okkur með handahreyfingum og öllum pakkanum. Við launuðum þeim greiðann með því að syngja “Höfuð, herðar…” og hlutum mikið klapp fyrir. Eini ljóðurinn á skólaferðinni var að einn krakkinn sagði Mamy að skólastjórinn seldi bækurnar sem við kæmum með. Benuoir sagði hins vegar að hann færi bara með þær heiim til að passa upp á þær. Maður bara trúir engu misjöfnu upp á þetta fólk þannig að ég tók þessa skýringu gilda. Við yfirgáfum loks þorpið og stefndum á ströndina. Þangað var hálftíma ganga framhjá hrísgrjónaökrunum þar sem fólk veifaði til okkar eins og allstaðar þar sem við förum. Einnig sáum við nokkuð af eðlum sem spókuðu sig á heitum steinunum og biðu eftir engisprettum í hádegismat.

IMG_2392 One of the older students

IMG_2393 …and the yonger class

Við höfðum gengið nokkuð upp á við þannig að útsýnið yfir ströndina var frábært þegar við fórum að færast aftur niður á við. Þetta var klettaströnd með fallegri vík fullri af hvítum sandi. Vorum ekki lengi að rífa okkur úr og henda okkur í sjóinn sem var yndislegur. Eftir ryk og skít og misgóðar sturtur var ansi gott að synda og skola af sér. Engin aðstaða var á ströndinni en það kom ekki að sök. Eftir sundið var lagst í sólbað og kroppurinn þurkaður. Uppi í klettunum sáum við plöntur sem éta skordýr og eftir prílið upp rákum við augun í hnúfubak að leika sér í briminu úti fyrir ströndinni.

IMG_2397 …on the beach

Þegar allir voru orðnir þurrir var aftur haldið af stað og í þetta sinn var þrammað í þrjú korter að seinna þorpinu sem til stóð að heimsækja. Það stóð við ósa stífluðu árinnar. Mennirnir virtust vera á sjó en konurnar heima við og einnig þau börn sem ekki fara í skóla. Mamy segir okkur að víða snúist allt um Zebu þannig að börn eru send að gæta þeirra frekar en að fara í skóla. Þarna virtust þó þau börn sem skrópuðu í skólann ekki hafa neitt betra að gera. Benoire sagði okkur frá hefðum fólksins, hvernig mennirnir fórna belju í upphafi vertíðar og fleira í þeim dúr. Til dæmis mega konurnar ekki mála sig eða greiða á meðan eiginmaðurinn er á sjó og áður fyrr máttu þær ekki fara út úr húsi.

IMG_2386 Simple living

Við röltum í gegn um þorpið og fórum svo með bát yfir árósinn þar sem við snæddum hádegisverð. Það þótti ekki við hæfi að gera það þar sem þorpsbúar sáu til. Það sem aðallega veiðist á þessum slóðum er túnfiskur og humar, hvorutveggja til útflutnings. Eitthvað er líka veitt af rækju og öðrum tegundum.

Eftir hádegismatinn lagði maður sig aðeins áður en haldið var heim. Eina markverða á heimleiðinni var að ég sá fyrsta almennilega fótboltann í ferðinni. Hinir höfðu allir verið saman vöðlað plast dótarí með neti utan um.

Á heimleiðinni var svo stoppað í kjörbúð sem innihélt flest sem maður þarf. Fyrir utan kom lítill business maður, líklega um tíu ára, sem plataði inn á mig armbandi. Ég keypti þó bara eitt á 5.000 aa því mig grunaði að Elínborg væri búin að kaupa nokkur.

Berenti

1 10 2007

Í morgun keyrðum við til Berenti reserve (verndarsvæði). Það tók um fjóra á hálfan tíma að keyra þessa 90 kílómetra og vegurinn var svakalega holóttur en rútan sem við fórum á var greinilega ný, með loftkælingu og öllu þannig að þetta var fínt. Við sáum þó fátæktina í þorpunum sem við keyrðum í gegn um. Hús heimamanna eru frábrugðin á milli ættbálka en í Madagaskar eru 18 mismunandi ættbálkar. Við sáum greinilegan mun á milli þorpanna. Fólkið er allt mjög glaðlynt en þó sáum við í nokkur skipti stráka dálítið grimma á svip.

IMG_2243 The bumpy road…

Það var frábært að koma til Berenti. Þegar við keyrðum að þá hittum við strax fyrir Ringtailed Lemurs. Þeir voru að vonast eftir að fá banana. Þeir voru svo frakkir að sniglast inn í herbergi til einnar í hópnum (Veru) og grömsuðu í bakpokanum hennar því þeir fundu bananalykt úr pokanum. Þeir eru svo sætir þessir littlu guttar, það væri hægt að eyða heilu dögunum í að fylgjast með þeim valhoppa um. Stuttu eftir að við komum til Berenti var farið í gögnuferð. Fyrst var að sjálfsögðu borðað og enn var það nautakjöt. Við erum búin að borða frekar mikið kjöt í þessari ferð. Allavega þá fórum við í göngu og skoðuðum trén og leituðum eftir fuglum og lemúrum. Með okkur í för var leiðsögumaður frá verndarsvæðinu og stelpa sem var í læri hjá honum. Rétt áður en við fórum í göngutúrinn sáum við dansandi Sifaka Lemúra sem var alveg dásamlegt. Þeir eru hvítir með svart trýni og þegar þeir fara á milli trjáa á jörðinni þá hoppa þeir til hliðanna eins og þeir séu að dansa. Mjög fyndið. Í göngunni sáum við líka Brúna Lemúra. Þeir eru hrikalega sætir og mjög forvitnir. Við sáum líka ýmsar tegundir fugla, bæði stóra ránfugla og einnig minni söngflugla.

IMG_2295 The cheeky Brown Lemur

Seinna um daginn þegar farið var að dimma þá fórum við í kvöldgönguna. Þá var orðið dimmt og við vorum öll með vasaljós með okkur. Síðan var gengið um skóginn og leitað að músa lemúrum, brúnum og gráum og brown sportive lemúrum. Við sáum þá líka. Elínborg komst í návígi við músalemúr og hann var þvílíkt sætur. Þetta var virkilega gaman þó svo að maður hefði ekki haft mikla trú á svona nætur göngu fyrirfram. Eftir gönguna var borðað og farið snemma í háttinn.

Daginn eftir fórum við í göngu snemma um morguninn. Þá var aftur leitað að fuglum og lemúrum. Síðan var morgunmatur og við hjónin fórum í smá göngutúr ein og sáum sifaka, Brúna Lemúra og Ringtail Lemúra. Það var hrikalega gaman að vera bara tvö úti í skógi að skoða þessi æðislegu dýr. Það var alveg stórkostlegt að vera á þessu verndarsvæði og geta verið í svona miklu návígi við öll þessi stórkostlegu dýr. Lemúrarnir eru auðvita sérstaklega skemmtilegir, þeir sitja í svo fyndnum stellingum, labba skringilega og eru bara hreint dásamlegir. Við hefðum alveg verið til í að vera aðeins lengur í Berenti. Við skoðuðum að lokum safn á staðnum sem var einskonar þjóðmynjasafn fyrir svæðið og svo skoðuðum við sesal verksmiðju en í kring um Berenti eru gífurlega víðáttumiklir sesal akrar. Að lokum keyðum við aftur til Fort Daupine í fjóra tíma. Það var bara ljómandi fínt að ferðast svona með rútu og fylgjast með fólkinu og skoða landslagið. Við stoppuðum til að kaupa minjagripi á einum stað. Þar stóð fólk við bás og voru allir að selja það sama. Það voru svona átta til tíu manns. Það var mjög erfitt að velja við hvern maður verslaði en við keyptum tvo pínulitla tré lemúra, mjög sætir. Einnig var stoppað í þorpi þar sem verið var að selja jurta Viagra að hætti heimamanna og við vorum fullvissuð um að það virkaði. Það kom hellingur að börnum að rútunni. Þau voru að biðja um peninga og nammi. Þetta var greinilega fátækt þorp. Húsin sem við höfum séð út í sveitinni hafa verið mjög fátækleg. Þetta eru bara kofar úr ruslalegum spýtuafgöngum. En samt brosir fólkið og er glatt að sjá. Hjá einu þorpinu voru staflar af fötum sem fólkið var að selja. Það selur allt sem það getur. Við gengum svo í gegn um eitt þorpið þar sem var þvílíkur barnaskari. Katherine elskar börnin og þau hana. Við sáum hana koma niður götuna með allan skarann á eftir sér, þau öll hlæjandi og glöð. Það var alveg dásamleg sjón. Við tókum svo af þeim myndir og sýndum þeim á skjáinn og þau hlóu og hlóu.

IMG_2359 Happy kids everywhere

Katherine er svo dugleg að leika við börnin og heilsa þeim og svona. Hún gerði svo grettu þegar við vorum komin upp í rútu og þau grettu sig öll til baka. Mjög fyndið. Öllum fannst ferðin til baka frá Berenti stutt því það var svo gaman á leiðinni. Það var þó fínt að koma aftur á hótelið í Fort Daupine. Við komum okkur fyrir og drifum okkur svo á barinn og hittum þar fyrir ferðafélagana. Þetta er allt prýðis fólk. Það er oft svo gaman að hlusta á enskuna og skoskuna. Í þetta sinn var maturinn ekki upp á marga fiska. Í aðalrétt var Zebu lifur eða nautalifur. Lyktin gaf ekki góð fyrirheit og bragðið var eins og búast mátti við. Það voru nokkrir sem borðuðu með bestu lyst, aðrir borðuðu aðeins fyrir kurteisis sakir en sumir komu engu niður.

Fort Dauphine

30 09 2007

Flugið til Fort Daupine gekk vel. Við sváfum mest allan tíman sem var mjög gott :) Við þurftum reyndar að bíða dálítið lengi á flugvellinum því við þurftum að bíða eftir fólki sem var ekki með okkur í hóp. Hótelið í Fort Daupine var mjög flott. Við tékkuðum okkur inn og fórum á herbergið. Síðan var haldið á barinn eins og venjulega og fengið sér Biere Lehbe ræ THB (Three Horse Bier) sem er mjög góður Madagaskar bjór. Við borðuðum svo öll saman. Fengum grænmetis súpu og svo Zebu pottrétt (nautakjötsgúllas). Þetta var bara ljómandi. Við sátum svo aðeins að sumbli eftir matinn með Julie, Clive og Katherine.

IMG_2222 The pool is unfortunately empty

Gaman að segja frá því að hótelið sem við gistum á var varið yfir blánóttina af tveimur mönnum vopnuðum spjótum :)

The savior

29 09 2007

Í morgun heimsóttum við í þorp sem reist hefur verið af Argentískum/Frönskum presti, Per Pedro, og er í raun partur af keðju af þorpum sem hann hefur reist. Hann var sjálfur að fagna 50 ára víxluafmæli og hélt messu af því tilefni. Per Pedro er búinn að búa í Madagaskar í tugi ára og hefur gert alveg ótrúlega hluti þar og helgað líf sitt aðstoð við fátæka og talið er að hann hafi aðstoðað yfir 250.000 manns og komið til betra lífs. Hann hefur bæði safnað fé til að byggja hús fyrir fókið og einnig komið að byggingu þeirra með eigin hendi. Þetta er líklega einhver merkilegasti maður sem við höfum komist í návígi við um ævina. Messan var alveg ótrúleg lífsreynsla. Það voru ábyggilega á milli 5.000 og 6.000 manns samankomin á samkomunni og stór hluti voru börn. Per Pedro messaði og fólkið söng. Maður bara táraðist við að vera vitni af því hvað þetta fólk gat verið glatt og skemmt sér mikið þó svo að ytri aðstæður væru kannski ekki eins og best verður á kosið. Þetta var alveg stórkostleg upplifun að vera viðstaddur þessa messu þar sem svona margt fólk kom saman og söng að gríðarlegri innlifun og gleði. Í kring um okkur sátu litlar stelpur sem sungu svo skært að þær hefðu líklega farið létt með að brjóta kristalsglös með söngnum. Það var líka saman að sjá að allir höfðu þvegið sér og farið í sparifötin fyrir messuna, allir í litríkustu fötunum sínum og voða prúðbúnir. Þarna sá maður að greinilega komu fatasendingar frá vesturlöndum og fókið raðaði þessu öllu saman í smekklega búninga. Það er alveg augljóst að Per Petro hefur gert frábæra hluti þarna og fólkið elskar hann og dáir enda hefur hann lagt sitt líf algerlega í að aðstoða þetta fólk. Hann var nokkuð vel tengdur í Frakklandi áður en hann kom til Madagaskar. Hann spilaði með franska landsliðinu í fótbolta og þekkti ýmsa ráðamenn í Frakklandi, meðal annars Mitterand fyrrverandi forseta Frakklands. Eftir að hann var vígður sem prestur kom hann í heimsókn til Madagaskar og þar kom hann auga á neyðina, tugir þúsusunda sem hafði lífsviðurværi sitt af því að róta í öskuhaugum, stunda betl, vændi og fleira í þeim dúr.

IMG_2187 At the mass

Eftir messuna var mikið af börnum sem vildi fá teknar myndir af sér og skríktu af gleði þegar þau sáu þær á skjáunum hjá okkur á digital myndavélunum. Einn gutti með bróður sinn á bakinu elti Elínborgu um allt í von um að fá myndir af sér og við reyndum að mynda sem flesta og sýna þeim. Margir úr hópnum höfðu komið með skólabækur, blýanta og fleira í þeim dúr og við afhentum mest af dótinu hér.

IMG_2204 With the kids

Við keyrðum svo upp á hæð þar sem sá yfir nokkur þorp sem Per Pedro hafði skipulagt og tókum myndir. Að lokum skoðuðum við svo aðstæður fólksins sem enn lifði á öskuhaugunum, þar var fólk að róta í ógeðslegu ruslinu með prikum og leita að einhverju ætilegu eða einhverju sem hægt væri að selja. Það virtist ekki huggulegt líf og maður getur eiginlega ekki ýmyndað sér aðstæður fólks sem dregur fram lífið á þennan hátt.

IMG_2211 Going through the garbage

IMG_2205 One of the new villages

Við fórum svo aftur á hótelið og pökkuðum niður því næst var feriðinni heitið til Fort Daupin sem er á suð-austur strönd eyjarinnar. Við borðuðum aftur á franska hótelinu og borðuðum þar fisk sem oft var nefndur í ferðinni og var alltaf kynntur sem “kind of like Tuna but not Tuna” og voru skiptar skoðanir um ágæti hans.

Til að byrja með verður flogið til Fort Daupin sem er á suð-austur horni Madagaskar og gist þar eina nótt en síðan er ferðinni heitið til Berenti sem er verndarsvæði fyrir Lemúra og gríðarleg tilhlökkun hjá okkur hjónunum að koma þangað.

“The first day”

28 09 2007

Daginn eftir var fyrsti frítíminn okkar sem við nýttum til að ná aðeins upp svefninum. Við vorum þó vöknuð um níu leitið. Við fórum aðeins á röltið og skoðuðum Tana. Það var endalaust af fólki að selja eitthvað. Mikið af mörkuðum og mjög mikið af fólki. Það var mjög mikið um börn á götunum, lítil börn með enn minni systkyni sín á bakinu. Þau voru mörg hver betlandi og áttu það til að elta okkur í lengri tíma. Okkur hafði verið ráðlagt að gefa betlurum ekkert því það hvetur aðeins til enn meira betls. Maður reyndi því að ganga bara framhjá betlandi, skítugum en krúttlegum börnum. Við sáum allskyns skrýtna hluti á mörkuðunum eins og nautaþindar, svínshausa, sjónvarpsloftnet, garðklippur, allskyns raftæki, fjöltengi, belti, nærföt og fleira, allt hlið við hlið.

IMG_2146 The kids on the street

Við snæddum svo hádegisverð á frönsku hóteli þar sem við fengum mjög góðan mat og afbragðs bjór með sem er framleiddur í Madagaskar.

Eftir hádegið hittust svo allir aftur og haldið var af stað í rútunni. Við byrjuðum á að fara á blómamarkað og gengum að minnismerki sem er til heiðurs föllnum hermönnum sem börðust með Frökkum í fyrri heimstyrjöldinni. Okkur var hins vegar sagt frá því að Frakkar hefðu neitað að reisa minnismerki fyrir framlag Madagaskar í seinni heimstyrjöldinni því þeir dirfðust að gera uppreisn við lok stríðsins og heimtuðu sjálfstæði á svipuðum tíma og við Íslendingar. Það þoldu Frakkar illa og refsuðu grimmilega. Eins og fyrr eltu okkur skítug en krúttleg börn sem betluðu nánast allan tíman. Þau voru fljót að finna út hverjir voru veikir fyrir og eltu þá einstaklinga sérstaklega (Elínborgu). Við héldum svo aftur af stað og skoðuðum höll drottningar, við gátum þó ekki farið inn því höllin brann fyrir 12 árum (andstæðingar konungsveldisins kveiktu í höllinni 1995) og var enn verið að gera við hana. Við höllina var víst merk kirkja og fallegur útsýnisstaður þar sem við sáum yfir alla borgina og beint ofan í þjóðarleikvanginn þar sem fram fór landsleikur í Rugby á milli heimamanna og Úganda þar sem heimamenn töldu sig sigurstranglegri. Það fór þó svo að Úganda vann með miklum mun enda voru þeir allir stórir drumbar eins og rugby leikarar eiga að vera en heimamenn litlir og grannir og ætluðu að sigra leikinn með snerpunni. Eftirá fannst manni bjartsýni heimamanna bera dám af bjartsýni Íslendinga í fótbolta þar sem við höldum alltaf að við séum komin á strik en þá fer allt til fjandans.

Um kvöldið var svo frjáls tími og við ákváðum að fara fara ein út að borða en flestir í hópnum borðuðu bara á hótelinu. Við byrjuðum að fordrykk á hótelinu en fórum svo í taxa á staðinn. Allir leigubílar sem við höfum séð eru pínulitlir, eld-gamlir franskir Renault, Citruen eða Peugot bílar. Við spurðum á hótelinu hvað við ættum að borga mikið fyrir farið en það er prúttað um verð leigubílanna. Okkur var sagt að borga 3.000 aa en við enduðum á að borga 5.000 aa sem eru um 170 krónur enda er erfitt að prútta hérna því það er verið að prútta um svo lágar upphæðir, það skiptir okkur litlu máli hvort við borgum 170 kr. eða 130 kr. fyrir leigubíl. Staðurinn sem við fórum á hét SakaManga sem var mjög skemmtilegur staður og við fengum mjög góðan mat og vín. Við borðuðum þriggja rétta veislu með Evrópsku klassa víni og greiddum fyrir það tæpar 2.000 kr. Við tókum svo leigubíl til baka og greiddum fyrir það 4.000 aa sem sínir að maður verður betri að prútta eftir því sem meira vín er í kroppnum :) Það er reyndar mjög gaman að taka leigubíl þarna, bílarnir eru algerir skrjóðir og hristast allir og nötra og manni líður eins og maður sé í blikk dós og til er í dæminu að bílstjórarnir drepi á bílunum niður brekkur til að spara bensín.

IMG_2135 Typical taxi

Næstum gleymdist að segja frá dýragarðinum sem við heimsóttum um miðjan daginn. Þar sáum flestar tegundir Lemúra, meðal annars Músalemúr og YaYa, þ.e. ljóta nætur lemúrinn með klærnar. Við vorum svo heppin að fá að sjá Lemúrana utan við búrin en verðirnir kölluðu í hópinn þegar þei voru að gefa þeim og við fengum að taka þátt. Þeir borðuðu aðallega ýmiskonar grænfóður en einnig fengum vi ð að dífa putta í hunang og þá komu þeir og sleiktu á manni puttana. Maður fattaði svo eftirá að verðirnir voru að drígja tekjurnar því þeir fengu að sjálfsögðu þjórfé fyrir að hafa verið svona góðir við okkur þannig að allir græddu, við, lemúrarnir og verðirnir. Við eigum svo eftir að fara á stað þar sem við fáum betra tækifæri til að gefa lemúrum og vera í nánum samskiptum við þá og er tilhlökkunin gríðarleg.

In Tana

27 09 2007

Jæja við erum mætt til Madagaskar og strax búin að upplifa ótrúlega hluti.

Þegar við komum út úr flugvélinni þá vorum við fyrst út á flugbraut og inn í flugstöðina. Okkur tókst þó að fara framhjá básnum þar sem við áttum að kaupa okkur visa inn í landið og við enduðum því á að lenda öftust í röðinni. Pínu klúður hjá okkur en þolinmæðin þrautir vinnur allar og við komumst inn í landið fyrir rest. Þegar við vorum búin að sækja töskurnar og fara í gegnum tollinn þá hittum við Jonah sem var fyrsti fararstjórinn okkar. Hann ráðlagði okkur að skipta peningunum okkar í Ayri Ayri. Við vorum dálítið eins og álfar þegar við vorum að reyna að finna út hvað væri gott að skipta miklu, maður var ekki alveg að gera sér grein fyrir peningamálunum. Fyrir eina krónu gátum við fengið 32 Ayri Ayri eða um 10.000 Ayri Ayri kostuðu 322 kr. Við hittumst svo breska fararstjórann okkar en hún heitir Katherine. Ferðafélagarnir okkar eru allir eldri en við en virðast vera hið almennilegasta fólk.

Við fórum í rútu til Tana. Farangurinn var settur upp á topp og dúkur strengdur yfir og allt bundið niður. Rútan sem við áttum eftir að ferðast með mestan part ferðarinnar var fínasta rúta, tiltölulega nýlegur Hyundai mini-bus sem tók um 20 manns í sæti. Ferðin á hótelið tók um 30 mínútur. Það sem sló okkur hvað mest á leiðinni var allt ruslið. Það er rusl á víð og dreif út um allt. Einnig var brunalykt áberandi í loftinu. Maður sá einnig fullt af börnum á og við göturnar og hrísgrjónaökrum var potað niður hvar sem pláss var. Fátæktin er mjög áberandi. Katherine var búin að vara okkur við að þegar við komum úr rútunni til að fara inn á Hótelið (Tana Plaza) þá myndu hópast að okkur sölumenn og betlarar. Það var akkúrat þannig. Fólk að selja alls kyns hluti, dúka, hljóðfæri, sígarettur, vanillustangir, sólgleraugu og fleira.

IMG_2535 The bus and the drivers

Hótelherbergið var einfalt en mjög snyrtilegt og manni leið vel. Við vorum með herbergi sem var á balcony þannig að við sáum vel yfir aðal götuna.

IMG_2133 On the balcony

Katherine þótti það ótrúlegt að allir skyldu komast í ferðina þar sem allir fengu þennan stutta fyrirvara. Ákveðið var að nýta daginn vel. Við fórum fyrst á hlaðborð á hótelinu sem er víst það glæsilegasta í bænum og sama má í raun segja um hótelið þó svo að við værum ekki að gera okkur grein fyrir því strax í upphafi. Eftir hlaðborðið var farið aðeins út fyrir borgina að skoða gamla konungshöll. Við keyrðum lengi vel og okkur voru sýnd grafhýsi heimamanna en þau voru mjög mismunandi eftir því hvaða ættbálkar reistu þau eins og við áttum eftir að sjá eftir því sem við fórum víðar. Það mátti ekki benda á grafhýsin með vísifingri þar sem það er óvirðing. Annaðhvort verður maður að benda með bognum fingri eða með allri hendinni til þess að sýna tilhlíðilega virðingu.

Þegar farið var af stað byrjaði maður að gera sér mynd af konungshöllinni í huganum, sá fyrir sér Buckingham Palace og fleiri slíka slíka glæsilega staði. Þessi höll var hins vegar ekki alveg eins og glæsihallir Evrópu. Hallarstæðið var hátt uppi á fjalli því að konungur átti að gnæfa yfir öðrum þegnum. Á staðnum voru í raun tvær hallir, ein töluvert eldri og svo önnur töluvert nýrri. Sú eldri var um 30 fermetra timburhús sem var líklega með um 10 metra háum mæni. Inni var eitt eldstæði og litlir drumbar fyrir matargesti að sitja á. Helst vakti athygli að rúm konungs var í um 2 metra hæð og átti að gnæfa yfir drottningu á táknrænan hátt en hún svaf ekki með konungi. Einnig vakti athygli að hægt var að príla upp í mæni og þegar við spyrðum til hvers það væri gert þá var okkur sagt að konungur hefði stundum falið sig þar til að geta heyrt hvað gestir sögðu í viðtölum við ráðgjafa eða drottningu því hann vissi kannski að viðkomandi hegðaði sér öðruvísi fyrir framan konung en aðra. Nýja höllin var svo heldur nútímalegri en þó á engan hátt ríkmannleg og hefði í mestalagi dugað íslenskum millistjórnanda, forstjóri hefði rifið húsið og byggt nýtt á lóðinni.

IMG_2118 The old palace

Um kvöldið borðuðum við svo öll saman og fararstjórinn fór yfir öll helstu mál. Við kynntumst aðeins fólkinu en töluðum mest við Julie og Chris en þær eru enskar systur, önnur líklega tæplega sextug og hin rúmlega. Þær höfðu ferðast víða en Chris þó heldur meira, hún var búin að koma oft til Afríku og gat sagt okkur af kynnum sínum við górillur, ljón og fleiri villidýr. Einnig hafði hún farið víða um Asíu og Suður Ameríku. Hún neitaði hins vegar að fara til Bandaríkjana, sagði að það væri bara fyrir konur með blátt hár en átti þar við eldri konur með lagningarvökva í hárinu en hann á það til að setja aðeins bláma í hárið.